Guðbjörg Matthíasdóttir í Vestmannaeyjum er skattadrottning landsins. Henni ber að greiða rétt tæpar 343 milljónir í skatta á þessu ári.
Í öðru sæti er Ingi Guðjónsson í Kópavogi með skatta upp á 198 milljónir króna. Í þriðja sæti er Þorsteinn Hjaltested í Kópavogi með skatta upp á rúmlega 119 milljónir króna og í fjórða sæti er Katrín Þorvaldsdóttir í Reykjavík með skatta upp á tæplega 116 milljónir króna.
Ríkisskattstjóri hefur lokið álagningu opinberra gjalda 2010 á einstaklinga. Er það fyrsta álagningin eftir sameiningu skattumdæma sem kom til framkvæmda við síðustu áramót. Ríkisskattstjóri leggur nú fram álagningarskrá en áður lögðu 9 skattstjórar fram hver sína skrá.
Í tilkynningu segir að á skattgrunnskrá voru rösklega 261.000 framteljendur. Af þeim sættu 13.750 einstaklingar áætlunum eða 5,26% af skattgrunnskrá. Álagningarskrár liggja frammi á skattstofum fram til 11. ágúst 2010 en kærufrestur rennur út 27. ágúst.
Hin breytta framkvæmd gekk vel og verkaskipting var með öðrum hætti en áður. Skil á skattframtölum eru nú betri en síðustu ár. Þar hefur ugglaust haft mest að segja að mun fleiri upplýsingar eru nú komnar inn á framtölin en áður var, allar upplýsingar frá fjármálastofnunum um inneignir og skuldir framteljenda eru nú áritaðar.
