Gunnar Rúnar Sigurþórsson játaði í dómssal að hafa orðið Hannesi Þór Helgasyni að bana. Gunnari Rúnari var birt ákæran fyrir stundi í Héraðsdómi Reykjanesi. Spurður um afstöðu hans til ákæruatriða sagði hann: „Ég játa."
Verjandi Gunnars Rúnars fer fram á að réttarhaldið verði lokað, og leggur sérstaka áherslu á að það verðu lokað almenningi og fjölmiðlum þegar Gunnar Rúnar gefur skýrslu sem og geðlæknir hans.
Blaðamaður Vísis var í dómsal þegar Gunnari Rúnari var birt ákæran og var fullur salur af fólki. Fjölskylda Hannesar sat þar á fyrsta bekk, faðir hans og systur.
Gunnar Rúnar er ákærður fyrir manndráp, með því að hafa veist að Hannesi Þór „...og banað honum með því að stinga hann ítrekað með hnífi í brjóst, bak, háls, andlit, handleggi og hendur. Gengu hnífstungur m.a. í hjarta, lunga og nýra," eins og segir í ákæru.
Aðalkrafa ríkissaksóknara er að Gunnar Rúnar sæti refsingu en „...til vara að honum verði gert að sæta öryggisgæslu á viðeigandi stofnun."
Gunnar Rúnar var handtekinn nokkru eftir að Hannes Þór fannst látinn á heimili sínu þann 15. ágúst. Gunnar Rúnar var úrskurðaður í gæsluvarðhald þann 27. ágúst og hefur verið í varðhaldi á Litla hrauni síðan.
Við yfirheyrslu hjá lögreglu játaði Gunnar Rúnar að hafa orðið Hannesi Þór að bana og stendur hann við þá játningu.