Frá og með næstu áramótum verður bannað að sitja eða liggja á hinum fjölförnu og líflegu gangstéttum San Francisco, og yfirleitt að hangsa þar. Borgin hefur löngum þótt sérstök fyrir sitt litskrúðuga götulíf. Sérstaklega á þetta við í Haight-Ashbury hverfinu þar sem er urmull af veitingahúsum og verslunum.
Bæði mannréttindasamtök og lífsglaðir borgarar hafa mótmælt banninu og ætla með málið fyrir dómstóla. Íbúar í hverfinu eru á öðru máli. Þeir segja miklar breytingar hafa orðið á höngsurum á undanförnum árum. Það séu ekki lengur listamenn með pensla eða trúbadorar heldur skeggjaðir og skuggalegir drjólar, gjarnan með risastóra árásarhunda. Fólk sé orðið hrætt við að ganga eftir Height-Ashbury.