Hugsjónir ykkar hafa átt stóran þátt í lífskjarabótum og framförum síðari alda. Því er brýnt að á Alþingi Íslendinga sitji traustir og marktækir málsvarar einstaklingsframtaks og markaðsfrelsis.
Sjálfstæðisflokkurinn er eini stjórnmálaflokkurinn á Íslandi sem kennir sig við hægristefnu. Þingmenn flokksins eru sextán talsins. Þeirra á meðal eru Ásbjörn Óttarsson, sem játaði að hafa greitt sér tugi milljóna í arðgreiðslur með ólöglegum hætti, Árni Johnsen, dæmdur þjófur og Sigurður Kári Kristjánsson sem þáði 4,6 milljónir í prófkjörsstyrki en neitar að upplýsa hverjir styrkveitendurnir voru. Einnig situr Guðlaugur Þór Þórðarson enn á þingi, en hann þáði tæplega 25 milljónir í styrki fyrir prófskjörsbaráttu sína árið 2006, að mestu leyti frá útrásarvíkingum. Sama ár hafði hann milligöngu um 30 milljón króna styrk frá FL Group og 25 milljón króna styrk frá Landsbankanum til Sjálfstæðisflokksins. Styrkirnir eru sérstaklega vafasamir í ljósi þess að styrkveitendur höfðu beinna hagsmuna að gæta í ýmsum deilumálum þessara ára. Þegar þannig er í pottinn búið leitar orðið mútur óhjákvæmilega á hugann. Formaður Sjálfstæðisflokksins, Bjarni Benediktsson, tók þátt í milljarðabraski ásamt Wernersbræðrum skömmu fyrir hrun þegar hann var stjórnarformaður N1, eins stærsta olíufyrirtækis á Íslandi. Fleiri framámenn flokksins tengjast ýmsum vafasömum viðskiptaævintýrum fortíðarinnar, en erfitt er að ímynda sér að fólk í slíkri stöðu geti með trúverðugum hætti tryggt heilbrigða samkeppni í anda hægristefnu.

Nú er landsfundur Sjálfstæðisflokksins á næsta leiti. Undirritaðir hvetja sjálfstæðismenn til að horfast í augu við afglöp liðinnar tíðar, uppræta spillinguna og gera róttækar breytingar á starfsháttum og forystu flokksins. Takist það ekki hljóta heiðarlegir og réttsýnir hægrimenn að segja skilið við Sjálfstæðisflokkinn. Ef hægrimenn vilja láta taka mark á sér er kannski eðlilegast að þeir stofni nýtt stjórnmálaafl. Öllum ætti að vera ljóst að það er gjörsamlega ósamrýmanlegt að berjast fyrir betra þjóðfélagi en styðja um leið spilltan og siðlausan stjórnmálaflokk.