Rannsókn lögreglu á umfangsmiklu kókaínsmygli hingað til lands í apríl er lokið.
Tvö lögregluembætti, á Suðurnesjum og höfuðborgarsvæðinu, hafa farið með rannsóknina. Suðurnesjahluti málsins hefur verið sendur til ríkissaksóknara og fíkniefnadeildin á höfuðborgarsvæðinu er að senda hinn hlutann til ákæruvaldsins þessa dagana. Sex manns eru í gæsluvarðhaldi vegna málsins, einn að kröfu lögreglustjórans á Suðurnesjum og fimm að kröfu lögreglustjóra höfuðborgarsvæðisins.
Það var helgina 10. til 11. apríl sem lögreglan á höfuðborgarsvæðinu handtók fimm fyrstu mennina vegna málsins. Maður og kona voru svo handtekin vegna málsins á Keflavíkurflugvelli á sama tímabili. Fólkið hafði reynt að smygla samtals rúmlega þremur kílóum af mjög sterku kókaíni í ferðatöskum til landsins frá Spáni.
Við rannsókn málsins fann lögregla átta milljónir króna í tveimur aðskildum bankahólfum. Í öðru hólfinu voru að auki skartgripir sem gullsmiðir hafa metið á rúmar tvær milljónir. Um var að ræða hringa og annað skart. Munirnir voru fáir en fokdýrir.
Að auki var svo einn hinna handteknu með rúmlega eina milljón króna í umslagi.- jss