Innlent

Vill deila þekkingu á jarð­varma með Úkraínu

Rafn Ágúst Ragnarsson skrifar
Jóhann Páll Jóhannsson orkumálaráðherra á óformlegum fundi orkumálaráðherra Evrópuríkja.
Jóhann Páll Jóhannsson orkumálaráðherra á óformlegum fundi orkumálaráðherra Evrópuríkja. Stjórnarráðið

Umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra sækir óformlegan fund orkumálaráðherra Evrópusambandsríkja og EFTA-ríkja í Varsjá í Póllandi. Hann segir stuðning við orkuöryggi í Úkraínu vera fjárfesting í framtíð frjálslynds lýðræðis.

Fram kemur í frétt á vef Stjórnarráðsins að enduruppbygging orkuinnviða í Úkraínu og Moldóvu hafi verið meðal umræðuefna á fundinum og Jóhann Páll Jóhannsson, umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra, hafi vakið athygli á hvernig jarðhiti geti nýst í þeim efnum.

„Ísland stendur með Úkraínu. Stuðningur við orkuöryggi Úkraínu í dag varðar veginn að bættu öryggi evrópska orkukerfisins í heild næstu áratugi. Þetta er ekki aðeins fjárfesting í orkuinnviðum heldur líka fjárfesting í fyrirkomulagi frjálslynds lýðræðis og sameiginlegum gildum okkar,“ er haft eftir Jóhanni Páli.

Hann benti á að Ísland býr að mikilli þekkingu og reynslu á sviði jarðhita, meðal annars hvernig nýta megi lághitasvæði sem eindreginn vilji sé til að deila með Úkraínu og Moldóvu.

„Þegar hætta stafar að raforkukerfum er hagkvæmt að hafa kerfi sem eru óháð hvert öðru. Þetta getur til dæmis átt við um nýtingu jarðhita til fjarhitunar. Þar eru tækifæri sem Evrópa og heimurinn allur getur nýtt sér, meðal annars með aukinni nýtingu jarðhita og breyttu verklagi varðandi hitun og kælingu. Þetta á sérstaklega við varðandi hitaveitur,“ segir Jóhann Páll.

Fram kemur að stuðningur við orkumál hafi verið í forgangi hjá íslenskum stjórnvöldum að beiðni úkraínskra stjórnvalda. Auk stuðnings í gegnum Alþjóðabankann hafi framlög verið veitt til sérstaks orkusjóðs fyrir Úkraínu og verkefni Þróunaráætlunar Sameinuðu þjóðanna um styrkingu á orkuinnviðum í landinu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×