Már Guðmundsson seðlabankastjóri segir að afnám á gjaldeyrishöftunum sé háð niðurstöðunni í Icesave deilunni. Ef Icesave verður samþykkt verður afnámið mun auðveldara en ella.
Már segir að fyrstu skrefin í afnámi haftanna sé að losa út aflandskrónur og binda þær hérlendis. Þetta er hægt án lausnar í Icesave deilunni.
„Þegar kemur að því að lyft almennum höftum af útflæði gjaldeyris verður ríkissjóður að hafa tekið erlent lán og þar með staðfest getu sína á erlendum mörkuðum,“ segir Már.
„Ef niðurstaðan er Nei verður að meta hvort ríkisjóður kemst á erlendan markað á næstu mánuðum og misserum. Ef það gerist ekki verður seðlabankinn að halda áfram að kaupa gjaldeyri sem þýðir veikara gengi, lægri kaupmátt og meiri verðbólgu.“
Þetta kom fram í máli Más Guðmundssonar seðlabankastjóra á opnum fundi þriggja nefnda Alþingis sem nú stendur yfir. Nefndirnar eru efnahags- og skattanefnd, fjárlaganefnd og viðskiptanefnd. Efni fundarins er skýrsla peningastefnunefndar Seðlabanka Íslands.
