Með hækkandi sól dregur almennt úr netnotkun. Þannig sýna niðurstöður Samræmdrar vefmælingar Módernus að notendum fækkar á milli vikna hjá 14 af 25 vinsælustu vefjunum.
Þetta á þó ekki við um vef Alþingis, althingi.is, sem er hástökkvari listans með 84% fjölgun notenda milli vikna.
Á vef Módernus segir að rúmlega 30 þúsund notendur sóttu vef Alþingis í síðustu viku, þeirri 23., en til samanburðar voru notendur rúmlega 10 þúsund í 21. viku.
„Líklega stafar þessi mikli áhugi landsmanna á löggjafarsamkundunni af kvótafrumvörpunum tveimur, sem hafa verið áberandi í fjölmiðlum nýverið. Aðeins tvisvar hefur notendafjöldi althingi.is mælst hærri - fyrst í lok árs 2008 þegar „hrunið" stóð sem hæst og næst um miðjan aprílmánuð 2010, þegar margrómuð rannsóknarskýrsla Alþingis birtist almenningi á vefnum," segir á Módernus.
