Ekki er þó allt jafn ánægjulegt því Svava hafði séð hvernig lítill fugl barðist í eldhúsglugganum dágóða stund og vildi komast inn. „Svo stoppaði hann og datt niður og dó," sagði litla stúlkan. Hún játti því þó að kannski væri sennilegt, sem Kristín Ásgeirsdóttir móðir hennar skaut inn í samtalið, að fuglinn hefði áreiðanlega fundið skjól undir runna. Þá bætti pabbinn, Sigmar Helgason, því við að þröstur hefði hagað sér óvenjulega um morguninn þegar hann tók veðrið og hoppað um á regnskálinni í stað þess að forða sér á meðan hann athafnaði sig. Sigmar er umsjónarmaður veðurstöðvarinnar á Klaustri.
Stóra systir Svövu, Fjóla Bergrún Sigmarsdóttir, er að útskrifast úr 10. bekk Kirkjubæjarskóla. Báðar eru heima því skóla- og leikskólahaldi hefur verið aflýst á Kirkjubæjarklaustri meðan ófært er vegna öskufoks og myrkurs. Í Reykjavík er að hefjast prófavika. „En við kláruðum prófin akkúrat í síðustu viku," segir Fjóla. „Það átti hins vegar að vera útskriftarpartí hjá okkur í kvöld, en það verður bara að hafa það," bætir hún við. Stefnt er að skólaslitum 1. júní næstkomandi, en óvíst hvað verður um skólahald þangað til. Útskriftarnemarnir verði því líklega af „Vordögum", frjálslegri skóladögum og leikjum sem áttu að vera fram að skólaslitum.
Fjölskyldufólkið, rétt eins og aðrir á Klaustri, virðist láta sér ástandið í léttu rúmi liggja. „Maður er bara feginn að hafa húsaskjól og nóg að bíta og brenna. Búðin er opin og hvaðeina," segir Kristín. Þau hjón viðurkenna þó að nokkurt verk sé fyrir dyrum við hreinsistarf á Klaustri, svo sem við að sópa ösku af húsþökum. „Það blæs ekki af þeim hér undir fjallinu. En við höfum nógan tíma," segir Sigmar.
olikr@frettabladid.is

