Eina beina tjónið sem ríkið hlaut af bankahruninu má rekja til Seðlabankans, en ekki til Geirs H. Haarde forsætisráðherra. Þetta sagði Andri Árnason, verjandi Geirs, fyrir Landsdómi í morgun.
Andri sagði að ákæruvaldið hefði ekki með neinu hætti reynt að afla gagna um það hvert beint tjón ríkisins af bankahruninu hefði verið nema með skýrslutökum af einu vitni. Það vitni var Steingrímur J. Sigfússon, fyrrverandi fjármálaráðherra.
Steingrímur hafi verið spurður um beint tjón ríkissjóðs og tjón að öðru leyti. "Í svari vitnisins fólst að hann væri að vísa til tjóns Seðlabanka Íslands. Það þurfti að leggja seðlabankanum til nýtt eigið fé vegna þess að hann hafði tapað svo miklu í svokölluðum ástarbréfaviðskiptum," sagði Andri.
Andri vakti athygli á því að rannsóknarnefnd Alþingis hefði gert athugasemdir við það að Seðlabankinn hafi ekki tekið veð í bréfum viðskiptabankanna miklu fyrr. „Skýring Seðlabankans var sú að það hefði verið svo mikið vesen," sagði Andri. Þetta hafi verið haft eftir Sturlu Pálssyni, framkvæmdastjóri alþjóða- og markaðssviðs Seðlabankans, í skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis. „Það beina tjón ríkisins að hafa þurft að leggja seðlabankanum til svo mikið eigið fé má allt eins rekja til Seðlabankans," sagði Steingrímur.
Andri sagði að annað sem Steingrímur hefið nefnt væru minni skatttekjur vegna falls bankanna. Það væri hins vegar ekki beint tjón heldur óbeint tjón. Þá væri alveg ljóst að skatttekjur ríkissjóðs hefðu líka minnkað ef bankarnir hefðu flutt úr landi.

