„Fyrrverandi bankastjórar sem halda því fram að þeir hafi mögulega getað lifað af eru í mjög djúpri afneitun," sagði Tryggvi Pálsson, ritari samráðshóps um fjármálastöðugleika og framkvæmdastjóri fjármálasviðs Seðlabankans, fyrir Landsdómi í dag.
Tryggvi sagði að ýmislegt hafi verið gert til þess að reyna að bjarga Kaupþingi í hruninu. Seðlabanki Íslands hafi veitt honum lán gegn veði í danska FIH bankanum sem Kaupþing átti. Þá hafi sænski seðlabankinn líka veitt Kaupþingi lán gegn veði í sænskum eignum Kaupþings. Það hafi verið litið svo á að ef möguleiki væri á að einn banki myndi lifa þá yrði brugðist við því vegna þess að það myndi hafa áhrif á efnahagslífið.
Engu að síður væri staðan sú að erlendir fjárfestar litu á íslensku bankana sem heild og því var gengið út frá því að ef það yrði áfall hjá einhverjum banka þá myndi það smita út frá sér til hinna.

