Verjendur telja að lögreglumenn sem rannsökuðu Vafningsmálið svokallaða hafi verið vanhæfir til að rannsaka það þar sem þeir höfðu sjálfir beina fjárhagslega hagsmuni af því að rannsókn myndi leiða til ákæru og af þeim sökum beri að vísa málinu frá. Tekist verður um kröfu þeirra um frávísun í lok þessa mánaðar.
Svo kann að fara að rannsókn sérstaks saksóknara sé ónýt í Vafningsmálinu og að málinu beri að vísa frá, en krafa um frávísun var lögð fram af verjendum Lárusar Welding og Guðmundar Hjaltasonar fyrr í þessum mánuði. En á hverju er þessi krafa byggð?
Þeir tveir lögreglumenn sem aðallega fóru með rannsókn Vafningsmálsins eru þeir Guðmundur Haukur Gunnarsson og Jón Óttar Ólafsson en þeir eiga fyrirtækið Pars Per Pars, sem hefur verið í fréttum vegna vinnu fyrir þrotabú Milestone, en mennirnir tveir voru kærðir til ríkissaksóknara fyrir þagnarskyldubrot.
Verjendur halda því fram að rannsókn á Vafningsmálinu hafi í raun verið ólögmæt þar sem þeir sem stýrðu rannsókninni höfðu beina, fjárhagslega hagsmuni af því að rannsóknin myndi leiða til ákæru.
Verjendur hafa vísað í 9. gr. lögreglulaga en þar kemur fram að hæfi rannsakenda fari eftir stjórnsýslulögum. Í 3. gr. stjórnsýslulaga kemur fram að maður sé vanhæfur til meðferðar máls ef hann á sjálfur hagsmuna að gæta eða fyrirtæki sem hann er í fyrirsvari fyrir. Og einnig ef að öðru leyti eru fyrir hendi þær aðstæður sem eru fallnar til þess að draga óhlutdrægni hans í efa með réttu.
Verjendur hafa bent á að lögreglumennirnir tveir hafi verið búnir að starfa fyrir Milestone í næstum tvo mánuði þegar ákæra var gefin út í Vafningsmálinu í desember 2011.
Mennirnir hafi haft fjárhagslegra hagsmuna að gæta um að ákæra yrði gefin út í málinu því meint lögbrot í Vafningsmálinu sé grundvöllur málarekstrar þrotabús Milestone í riftunarmáli. Þannig hafi verið bein tengsl milli árangurs af vinnu þeirra hjá sérstökum saksóknara og verðmæti vinnu þeirra fyrir þrotabú Milestone. Þannig hafi þeir verið vanhæfir til að rannsaka málið, rannsóknin sé ólögmæt og því beri að vísa málinu frá. Sérstakur saksóknari hefur andmælt þessu og telur að ekki séu efni til að vísa ákærunni frá af þessum sökum.
Tekist verður á um frávísunarkröfuna í málflutningi hinn 27. júní næstkomandi í Héraðsdómi Reykjavíkur. thorbjorn@stod2.is