Skoðun

Stuðningsgrein: Atkvæði mitt fær Andrea

Ragnar Þór Ingólfsson skrifar
Þegar forsetaframboðin ber á góma koma iðullega upp sömu tuggurnar. Við þurfum forseta með reynslu og allt að því barnalegt sé að kjósa framboð sem ekki eru líkleg til árangurs, því sé best að velja á milli þeirra sem líklegir eru til að vinna. Ég hef velt þessu svolítið fyrir mér og heimfært þetta á ríkjandi pólitísk öfl í landinu. Ef við værum að ganga til Alþingiskosninga og ég færi með þann þankagang í kjörklefann væru valkostirnir ekki margir né ýkja áhugaverðir þ.e. valið stæði á milli Sjálfstæðisflokksins og Samfylkingarinnar. Vinstri grænir eða Framsókn væru svo villta kortið í stöðunni og ný framboð eða viðlíka ferskleiki kæmust ekki á blað vegna reynsluleysis því fyrirfram útilokað væri að þau næðu meirihluta.

Stór partur af vanda þjóðarinnar er sú hugsun að kjósa á milli kvalara sinna eins og skoðanakannanir gefa sterklega til kynna. Þó þær séu oftast settar fram með eins villandi hætti og hugsast getur þá hafa þær alltaf áhrif á þá sem eru óákveðnir.

Ég ætla ekki að gera lítið úr öðrum frambjóðendum því allir hafa málstað að verja eða bakland að þjóna. Ég get samt ekki annað sagt en að mér finnst óþægilegt að sjá fólk breytast í fasi, málfari, klæðarburði og hárgreiðslu við það eitt að vilja þjóna þjóðinni, eins og að keppnin standi um flottustu grímuna.

Þessi pistill er í sjálfu sér ekki sérstakar hugleiðingar mínar um hvað ég ætla eða ætti að kjósa heldur stutt greinargerð með atkvæði mínu sem ég er löngu búin að úthluta.

Atkvæði mitt fær Andrea. Hún fær ekki atkvæði mitt af því hún er kona eða fór í forsetaframbjóðendabúðina og keypti sér lágstemmdu draktina í lágstemmdu alþýðulitunum. Hún fær atkvæði mitt af þeirri einföldu átæðu að hún hefur haldið uppi málsvörn fyrir heimilin í landinu á óeigingjarnan og málefnalegan hátt án þess að láta lýðskrum þeirra sem verja kerfisvilluna og misskiptingu lífsgæða trufla sig. Hún á svo sannarlega ekki mikla möguleika miðað við skoðanakannanir en mér er nákvæmlega sama.

Einhverjir gætu talið mig alveg eins geta skilað auðu en svo er alls ekki. Þetta er einfaldlega spurning um hugarfar. Ef við viljum breyta einhverju í fársjúku samfélagi þá byrja breytingarnar hjá okkur sjálfum og þær byrja á því að taka afstöðu gegn hræðslunni við breytingar og taka afstöðu með fólki sem þorir.




Skoðun

Skoðun

Sögu­legt tæki­færi

Logi Einarsson,Eydís Ásbjörnsdóttir,Sæunn Gísladóttir,Sindri S. Kristjánsson skrifar

Sjá meira


×