Ekkert hefur gerst í nótt sem bendir til þess að Skaftárhlaup sé hafið eða að hefjast. Flugmaður tilkynnti um það í gær að íshellan yfir vestari katlinum hefði sigið, sem er merki um hlaup.
Snorri Zophoníasarson hjá Veðurstofunni segir hinsvegar að enn bendi ekkert til þess að eitthvað sé að gerast en þó mælist ketilvatn í ánni. Hafi hlaupið úr katlinum í gær tekur það vatnið um tuttugu til tuttugu og fjóra tíma að renna út í Skaftá en sextíu kílómetra leið er úr katlinum og að ánni.
Í gærmorgun varð vart við jarðhræringar á svæðinu en nóttin var hinsvegar róleg.