Fyrstu umferðinni í NFL-deildinni lauk í nótt með tveimur leikjum. Baltimore valtaði þá yfir Cincinnati, 44-13, og svo vann San Diego sterkan útisigur á Oakland, 22-13.
Baltimore er spáð góðu gengi líkt og undanfarin ár og liðið sýndi og sannaði í nótt að það er líklega betra en síðustu ár.
Liðið var hársbreidd frá því að komast í Super Bowl á síðustu leiktíð en spili liðið álíka sóknarleik og í nótt í bland við sinn rómaða varnarleik gæti liðið farið alla leið.
Baltimore minntist stofnanda félagsins, Art Modell, í nótt en hann lést á dögunum. Það gerði liðið með miklum sóma.
San Diego olli vonbrigðum á síðustu leiktíð en liðið hefur líklega lært mikið af síðasta vetri. Leikstjórnandi liðsins, Philip Rivers, var afar mistækur í fyrra en gerði engin mistök í nótt.
