Skoðun

Ramminn er mála­miðlun

Ólína Þorvarðardóttir skrifar

Í svonefndri Rammaáætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða fá ekki allir allt sem þeir vilja.

Stundum er sagt um málamiðlanir að þær geri alla álíka óánægða og því sé skynsamlegra að velja milli sjónarmiða. Nokkuð er til í því – en í jafn stóru máli og þessu getur ekki hjá því farið að reynt sé að teygja sig í átt til ólíkra sjónarmiða. Hér hefur það verið gert.

Rammaáætlun á að tryggja að nýting landsvæða með virkjunarkostum byggist á langtímasjónarmiðum og heildstæðu hagsmunamati með sjálfbærni að leiðarljósi. Henni er ætlað að taka tillit til verndargildis náttúru og menningarsögulegra minja, hagkvæmni og arðsemi ólíkra nýtingarkosta sem varða þjóðarhag, svo og hagsmuna þeirra sem nýta þessi sömu gæði. Slík áætlun skal lögð fram á Alþingi á fjögurra ára fresti hið minnsta.

Virkjunarsinnar eru ekki allskostar ánægðir með þann ramma sem nú liggur fyrir. Þeir telja að meira hefði mátt virkja. Þeir tala um atvinnuuppbyggingu, telja störf og peningaleg verðmæti. Þeir líta á fossandi vatn og sjá þar ónýttan möguleika sem rennur í tilgangsleysi til sjávar.

Verndunarsinninn dáist að fallandi fossi. Hann sér þar líka mikla möguleika, en allt annars konar. Hann upplifir fegurð, finnur kraftinn frá vatnsaflinu og óskar þess innra með sér að fleiri fái að njóta: Börnin og barnabörnin til dæmis. Báðir hafa nokkuð til síns máls.

Vaknandi vitund

En á það að vera sjálfgefið að virkja allt sem virkjanlegt er, bara af því það er hægt? Er ásættanlegt að virkja náttúruauðlindir – spilla þar með umhverfi – ef við þurfum ekki orkuna? Er atvinnuuppbygging réttlætanleg ástæða virkjunarframkvæmda, eins og sumir hafa haldið fram? Væri ekki nær að spyrja sig: Hversu lítið kemst ég af með? Hvað get ég komist hjá að virkja mikið?

Í nýju náttúruauðlindaákvæði í frumvarpi að breyttri stjórnarskrá er í fyrsta skipti fjallað um náttúruna sjálfrar hennar vegna, sem undirstöðu lífs í landinu sem öllum ber að virða og vernda. Þar er í fyrsta skipti sagt berum orðum í texta sem hefur lagagildi að öllum skuli með lögum tryggður réttur á heilnæmu umhverfi, fersku vatni, ómenguðu andrúmslofti og óspilltri náttúru. Í því felst að fjölbreytni lífs og lands sé viðhaldið og náttúruminjar, óbyggð víðerni, gróður og jarðvegur njóti verndar. Þar er kveðið á um að nýtingu náttúrugæða skuli þannig hagað að þau skerðist sem minnst til langframa og réttur náttúrunnar og komandi kynslóða sé virtur.

Þetta mikilvæga ákvæði er til vitnis um vaknandi vitund og virðingu fyrir umhverfinu, móður jörð. Í því er horft frá öðrum sjónarhóli en þeim sem hingað til hefur verið svo mikils ráðandi í umræðunni um nýtingu náttúrugæða.

Íslensk náttúra er ekki aðeins uppspretta ljóss og varma, hún er líka uppspretta lífsafkomu og fæðuframboðs. Hún er uppspretta upplifunar. Ekki síst er hún uppspretta ódauðlegrar listsköpunar sem við þekkjum af ljóðum þjóðskáldanna og af öndvegisverkum myndlistarinnar.

Skynsamleg nýting

Það er ekki sjálfgefið að virkja allt, bara af því það er hægt. Náttúran á sinn tilverurétt og óbornar kynslóðir eiga sitt tilkall til þess að koma að ákvörðunum um nýtingu og vernd náttúrugæða. Orðið "nýtingarvernd" gæti jafnvel átt hér við, því verndun getur verið viss tegund nýtingar og atvinnusköpunar. Nærtækt er að benda á ferðaþjónustuna, en ég vil líka minna á þá mikilvægu hreinleikaímynd sem íslensk fyrirtæki, ekki síst matvælafyrirtæki, þurfa mjög á að halda.

Sú rammaáætlun sem nú liggur fyrir mætir andstæðum viðhorfum af þeirri hófsemi sem vænta má þegar mikið er í húfi og skoðanir skiptar. Hún gerir ráð fyrir skynsamlegri nýtingu en virðir um leið mikilvægi náttúrugersema. Hér er tekið visst tillit til óskertra svæða – þótt óneitanlega hljóti einhverjum að finnast sem lengra hefði mátt ganga í því efni.

Á hinn bóginn hefur fjölda landsvæða – sem að óbreyttu lægju undir sem virkjunarkostir – verið komið í skjól í þessari áætlun: Jökulsá á Fjöllum, Markarfljóti, Hengilsvæðinu, Geysissvæðinu, Kerlingafjöllum, Hvítá í Árnessýslu og Gjástykki. Öðrum kostum hefur verið skipað í biðflokk þar sem þau bíða frekari rannsókna eða annarra átekta. Við fjölgun kosta í biðflokki er fylgt þeim sjálfsögðu varúðarviðmiðum sem eru meginsjónarmið alls umhverfisréttar og við Íslendingar höfum með alþjóðlegum samningum skuldbundið okkur til þess að fylgja.

Hér hefur faglegum aðferðum verið fylgt, að svo miklu leyti sem hægt er, þegar mannshönd og mannshugur eru annars vegar. Hér hafa ekki allir fengið það sem þeir vildu. En þessi málamiðlun er skynsamleg að teknu tilliti til þess hversu andstæð sjónarmiðin eru í jafn vandmeðförnu máli.




Skoðun

Skoðun

Nálgunarbann

Fjölnir Sæmundsson,Sonja Ýr Þorbergsdóttir skrifar

Sjá meira


×