Það ríkti hátíðarstemmning í Ráðhúsi Reykjavíkur síðdegis í dag þar sem FKA; Félag kvenna í atvinnulífinu afhenti sínar árlegu viðurkenningar að viðstöddum fjölda þeirra karla og kvenna sem standa í framlínu íslensks viðskipta- og atvinnulífs. Hafdís Jónsdóttir, formaður félagsins ávarpaði gesti og bauð þá velkomna en að því búnu afhenti Katrín Júlíusdóttir fjármála- og efnahagsráðherra fjórar viðurkenningar.
FKA viðurkenninguna 2013 hlaut Margrét Guðmundsdóttir, forstjóri Icepharma, stjórnarformaður N1, formaður Félags atvinnurekenda og forseti ESTA (European Surgical Trade Association); evrópskra samtaka dreifingarfyrirtækja á sviði hjúkrunarvara. Margrét er viðskiptafræðingur að mennt og stundaði nám við Háskóla Íslands, HÍ og CBS í Kaupmannahöfn þar sem hún lauk mastersnámi í starfsmannastjórnun.
Hvatningarviðurkenningu FKA hlutu þær Signý Kolbeinsdóttir og Helga Árnadóttir – eigendur Tulipop. "Við vorum að fá kennitölu og útvega okkur strikamerki." sögðu þær í blaðaviðtali í lok árs 2010 og nú rúmum tveimur árum síðar eru vörur þeirra seldar í hönnunarverslunum á Íslandi, í Bandaríkjunum, Frakklandi, Hollandi, Írlandi, Noregi, Svíþjóð og Þýskalandi.
Þakkarviðurkenningu FKA hlaut Guðrún Lárusdóttir í Stálskipum. Guðrún hefur rekið Stálskip í hartnær hálfa öld og er því "skipstjórinn í brúnni" þó hún hafi aldrei farið einn einasta túr sökum sjóveiki. En reksturinn er í hennar höndum og sölumálin annast eiginmaðurinn. Þau hjónin byrjuðu með tvær hendur tómar árið 1970 og í dag selja þau vörur sínar á markaði í Japan, Bretlandi, Suður Kóreu, Kína, Rússlandi, Bandaríkjunum og Grikklandi. Sjá viðtal við Guðrúnu HÉR.
Gæfusporið 2012 hlutu SVÞ; Samtök verslunar og þjónustu og veitti formaður Margrét Kristmannsdóttir, formaður SVÞ viðurkenningunni viðtöku.