Skoðun

Nú er komið að því að nota heilann og kjósa rétt

Guðmundur Ari Sigurjónsson skrifar
Kæri kjósandi, nær og fjær.

Ég skrifa þessa grein með einfaldan tilgang í huga, ég vil biðla til þín að mæta á kjörstað 27. apríl, nýta lýðræðislegan rétt þinn og kjósa. Ég ætla reyndar að biðja þig um að gera aðeins meira en bara að kjósa.

Hér á landi er kosningakerfið svo skakkt að flokkar þurfa að fá 5% atkvæða svo þeir fái eitt atkvæði talið gilt. Samkvæmt skoðanakönnun Fréttablaðsins og Stöðvar 2 sem birtist 24. apríl eða í kosningavikunni munu 10% atkvæða falla úr gildi sökum þessa. Það þýðir að 10% þjóðarinnar mun ekki eiga fulltrúa inni á Alþingi Íslendinga. Þetta hefur einnig þau áhrif að þeir flokkar sem hljóta kjör inn á þing þurfa hlutfallslega minna fylgi kjósenda á bak við sig til að mynda ríkisstjórn. Sem dæmi má taka að ef kosningar færu líkt og könnun Fréttablaðsins gefur til kynna myndu Sjálfstæðisflokkurinn og Framsóknarflokkurinn geta myndað ríkisstjórn með 57% þingsæta þrátt fyrir að hafa aðeins stuðning 49,7% þjóðarinnar.

Það liggur í augum uppi að það er galli í kerfinu og við verðum að viðurkenna það. Í Frakklandi er kosið í tveimur umferðum. Í fyrri umferðinni er mögulegt að styðja frambjóðendur sem eiga litla möguleika á að hljóta kosningu án þess að það hafi áhrif á niðurstöður kosninganna. Þær ákvarðast því oftar en ekki af seinni umferðinni, þar sem valið stendur á milli þeirra sem náðu kjöri. Frakkar eiga máltæki um hvernig þeir nýta sér þetta fyrirkomulag en „í fyrstu umferð á að kjósa með hjartanu en í þeirri seinni með heilanum“.

Nú er komið að því að kjósa með heilanum. Það er falleg hugsun að kjósa með hjartanu og má segja að við höfum verið að gera það í skoðanakönnunum undanfarnar vikur. Niðurstöður liggja fyrir og núna er kominn tími til að velja á milli þeirra flokka sem munu ná inn á þing. Vilt þú eiga fulltrúa inni á Alþingi eða vilt þú kasta atkvæði þínu á glæ og styðja á sama tíma ríkisstjórn B&D?




Skoðun

Skoðun

Nálgunarbann

Fjölnir Sæmundsson,Sonja Ýr Þorbergsdóttir skrifar

Sjá meira


×