Heimagert rauðkál er órjúfanlegur hluti af jólamatnum á mörgum heimilum og jaðrar við helgispjöll að dengja niðursoðnu káli úr dós á borðið.

Ástæða þess að dósakál er yfirleitt á borðum er gjarnan sú að fólki vex matreiðslan í augum. Hún er þó hægur vandi og fyllir húsið þar að auki af jólalegum ilmi.
Þeir sem prófa heimagert rauðkál með jólasteikinni einu sinni snúa ekki aftur í dósina.
Í matarbiblíunni Matur og drykkur eftir Helgu Sigurðardóttur er að finna einfalda uppskrift að jólarauðkáli.
Rauðkál nr. I
- 1 kg rauðkál
- 50 g smjörlíki
- 2 msk. sykur
- 1 tsk. salt
- 1/2 dl edik
- 1/2 dl vatn
- Saft (Helga tekur ekki fram hvers konar saft en við stingum upp á rifsberjasaft)
Óhreinu blöðin eru tekin utan af rauðkálshöfðinu og það skorið í mjög litlar ræmur.
Sykri og salti blandað saman við rauðkálið.
Smjörlíkið brúnað í potti þar til kálið fer að rýrna og sykurinn er brúnaður.
Þá er ediki og vatni hellt á og soðið við hægan hita í 2 klst.
Þá er sykur, saft og edik sett í eftir geðþótta. Borðað með svínasteik og öðrum kjötréttum.
Uppskriftina er að finna á bls. 179 í sjöttu útgáfu af bókinni Matur og drykkur eftir Helgu Sigurðardóttur.