Þetta kom fram í þættinum „Um land allt“ á Stöð 2, sem nú má sjá í heild sinni á Vísi. Þar var rætt við forystufólk í skógrækt á Fljótsdalshéraði um vaxandi skógarauðlind á Íslandi og tækifæri sem hún gefur til atvinnusköpunar. Dæmi voru sýnd frá Hallormsstað þar sem kominn er vísir að timburiðnaði og trjábolir meðal annars sagaðir niður í borðvið. Að mati Þrastar gefur skógariðnaður færi á milljarða gjaldeyrissparnaði þjóðarbúsins.
„Kannski hefur vaxtarhraðinn komið okkur dálítið á óvart. Hann er bara mjög góður, jafn góður og á sömu breiddargráðu og í Skandinavíu. Það gladdi okkur allavega mjög að sjá það,“ segir Þór Þorfinnsson, skógarvörður á Hallormsstað. „Við erum búnir að stunda viðarvaxtarmælingar í áratugi og það er nú niðurstaðan.“

„Það kemur mér mest á óvart hvað skógarnir eru orðnir rosalega stórir,“ segir Edda og segist sjá það vel úr lofti þegar hún fljúgi yfir Fljótsdalshérað. „Svo kemur mér líka á óvart hvað lauftré, eins og eikur og hlynir og svoleiðis tré, vaxa mikið og vaxa vel.“
Ekki er langt síðan menn gerðu nánast grín að íslenskum skógum og skógrækt en þau viðhorf hafa verið að breytast. Menn hafa sannfærst um að alvöruskógar geta vaxið á Íslandi.

„Það er reyndar búið að vera vitað í nokkuð mörg ár að margar trjátegundir vaxa hér álíka vel og á sömu breiddargráðum í Skandinavíu þar sem skógariðnaður er aðalatvinnuvegurinn. Þetta á við um sitkagreni, rússalerki, stafafuru, alaskaösp, - við höfum nokkrar tegundir til að velja úr sem vaxa hér bara alveg ágætlega. Og það er grunnurinn að því að rækta þær í nægilega stórum stíl til þess að hér geti orðið skógariðnaður, - ef við viljum,“ segir Þröstur.