Danir nældu í flesta titla á Norðurlandameistaramótinu í karate fór fram í Riga, Lettlandi um helgina. Íslensku keppendurnir nældu í ein silfurverðlaun og fimm bronsverðlaun.
Metþátttaka var á mótinu þar sem um 260 keppendur voru tóku þátt í einstaklingsflokkum og 15 lið skráð til leiks í sveitakeppni. Ísland sendi 18 keppendur í einstaklingsflokkum og önnur 4 lið til leiks í sveitakeppninni.
Íslenska karlasveitin í kata fékk silfurverðlaun eftir að hafa tapað úrslitaviðureigninni á móti Noregi. Kvennasveitin í kata fékk svo bronsverðlaun eftir að hafa tapað fyrir Svíþjóð í undandúrslitum. Af keppendum í Kata átti Svana Katla Þorsteinsdóttir besta daginn.
Kumite keppendur Íslendinga áttu misjafnan dag í einstaklingsflokkum en Katrín Ingunn Björnsdóttir, Edda Kristín Óttarsdóttir, Ólafur Engilbert Áranson og Sindri Péturson stóðu sig best og nældu öll í bronsverðlaun í sínum flokkum.
Katrín Ingunn sigraði nokkuð örugglega Aleksandra Sokk frá Eistlandi í bardaganum um 3ja sætið 9-1. Edda Kristín mætti Sade Tiger frá Finnlandi í brons bardaganum, eftir jafna og skemmtilega viðureign stóð Edda uppi sem sigurvegari og fór viðureignin 4-2.
Ólafur Engilbert mætti Sami Sutinen frá Finnlandi í viðureigninni um þriðja sætið og fór sú viðureign fór 4-1 fyrir Ólaf. Sindri mætti Joni Lipiainen frá Finnlandi í bardaganum um 3ja sætið þar sem Sindri fór á kostum og vann örugglega 8-0 áður en tíminn rann út og þar með sýndi Sindri ein bestu tilþrif sem íslenskur keppandi átti í gær.
Þegar mótinu var lokið var ljóst að Danmörk stóð sig best af öllum þjóðum með 11 Norðurlandameistaratitla. Næsta verkefni landsliðs Íslands er Evrópumeistaramótið sem haldið verður í Tampere, Finnlandi í maí.
