Það er mikill framboðshugur í starfsmönnum Hótels Rangár því þar eru átta starfsmenn, allt konur, í framboði fyrir sveitarstjórnarkosningarnar á laugardaginn á Suðurlandi.
Þetta er 25 prósent þeirra kvenna sem vinna á hótelinu eða 14,8% af starfsmönnum hótelsins. „Þetta hlýtur að vera heimsmet, ég trúi ekki öðru, fjórðungur starfsmanna hótelsins eru í framboði, ég ætlaði ekki að trúa þessu fyrr en ég sá nafnalistann,“ segir Friðrik Pálsson, eigandi Hótels Rangárs.
Á myndinni sem fylgir fréttinni má sjá þær konur sem eru í framboði, aftari röð frá vinstri:
Karen H.Karlsdóttir Svendsen, 4.sæti fyrir Framsóknarflokkinn í Árborg, Katrín J. Óskarsdóttir, 10.sæti fyrir Sjálfstæðisflokkinn í Rangárþingi Eystra, Sólrún Helga Guðmundsdóttir, 3.sæti fyrir Sjálfstæðisflokkinn í Rangárþingi Ytra, Hugrún Pétursdóttir, 13.sæti fyrir Sjálfstæðisflokkinn í Rangárþingi Ytra. Fremri röð, frá vinstri, Fjóla Hrund Björnsdóttir , fyrsti varaþingmaður fyrir Framsóknarflokkinn í Suðurkjördæmi, Ewa Tyl, 11.sæti fyrir Framboð Fólksins í Rangárþingi Eystra, Ása Valdís Árnadóttir, 6.sæti fyrir Listi Lýðræðissinna í Grímsnes- og Grafningshrepp og Elfa Dögg Ragnarsdóttir, 6.sæti í Rangárþingi Eystra.
Átta konur á sama vinnustaðnum í framboði á Suðurlandi
Magnús Hlynur Hreiðarsson skrifar
