Thelma Björg Björnsdóttir, ÍFR, er komin í úrslit í 50m skriðsundi á Evrópumeistaramóti fatlaðra í sundi sem haldið er í Eindhoven í Hollandi.
Undanrásum var að ljúka, en Thelma hafnaði í 6. sæti á tímanum 40,32 sekúndum, sem er nýtt Íslandsmet.
Úrslitin hefjast klukkan 15:53 að íslenskum tíma.
Thelma var einnig á ferðinni í gær, en þá lenti hún í 5. sæti í 50m flugsundi og 7. sæti í 100m bringusundi. Hún bætti eigið Íslandsmet í flugsundinu þegar hún kom í mark á 47,73 sekúndum.
Thelma hafði áður nælt sér í bronsverðlaun í 400m skriðsundi.
