Sara Björk Sigurðardóttir, efnafræðingur, fékk þá hugmynd búa til gasmæli sem aldrei verður batteríslaus en gasmengunarmælirinn á Höfn í Hornafirði varð rafmagnslaus í fyrrinótt.
Sara er í mastersnámi í Danmörku en faðir hennar, Sigurður Mar Halldórsson, gerði nokkurs konar efnafræðitilraun þar sem hann býr á Höfn á Hornafirði.
Brennisteinsdíoxíð, efnið sem við öndum að okkur þegar að gosmengun liggur yfir, breytist í brennisteinssýru þegar það kemst í snertingu við vatn.
Efnafræðitilraunin sem Sara fékk hugmyndina að, og fjarstýrði frá Danmörku til Hafnar, gengur út að setja rauðkál á disk og út undir bert loft. Rauðkál verður nefnilega bleikt þegar það kemst í snertingu við eitthvað súrt.
Sigurður setti því rauðkál út í gærkvöldi og var það þá blátt. Í morgun var það svo orðið bleikt og niðurstaðan því súrt andrúmsloft.
Sigurður segir í samtali við Vísi að Hornfirðingar séu nú komnir með betri gasmæli og að loftið á Hornafirði sé fínt í dag.
„Í gær fann viðkvæmt fólk enn fyrir menguninni og á sunnudaginn var þetta bara alveg skelfilegt. Ég er nú ekki viðkvæmur fyrir en ég fann það alveg að ef maður andaði að sér þá var eins og maður fengi ekki nóg loft. Svo var maður með verk í lungum og óbragð í munni.“
Samkvæmt upplýsingum á vefsíðu Veðurstofu Íslands má búast við ákveðinni norðanátt og að gasmengun nái frá Eldhrauni í vestri, og austur á Mýrar.
Á morgun má búast við mengunin verði á svæðinu frá Kirkjubæjarklaustri austur að Djúpavogi.
Fólk með undirliggjandi öndunarfæra sjúkdóma er hvatt til þess að hafa sérstakar gætur á líðan sinni og hafa strax samband við lækni ef það finnur fyrir óþægindum.
