Skoðun

Raki, mygla – meinsemd, meðul

Sigurður Ingi Jóhannsson skrifar
Umræðan um vandamál af völdum raka og myglu í húsnæði hefur farið vaxandi á undanförnum árum. Mannkyninu hefur enn ekki auðnast að vinna bug á þessari meinsemd þrátt fyrir miklar rannsóknir sem farið hafa fram á seinni tímum og þrátt fyrir hið flókna og umfangsmikla regluverk mannvirkjagerðar nútímans. Þetta gildir jafnt um Ísland sem og önnur lönd.

Ég fagna umræðu um þetta mikilvæga málefni. Rannsóknir á myndun myglu, vexti og áhrifum hennar á fólk spannar yfir mörg fræðasvið, s.s. byggingaverkfræði, líffræði og læknisfræði. Skoða þarf málið með heildstæðum hætti og vinnur umhverfis- og auðlindaráðuneytið í því að skipa þverfaglegan starfshóp sem mun fara vandlega yfir málið og skila tillögum að úrbótum sem miða m.a. að því að koma í veg fyrir raka og myglusveppi í íbúðar- og atvinnuhúsnæði.

Vöxtur myglu í híbýlum manna getur orsakast af mörgum samverkandi þáttum, svo sem raka, hitastigi, loftskiptum, byggingarefnum, hönnun, framkvæmd og jafnvel lífsstíl fólksins sem býr í húsnæðinu. Til að mynda skiptir loftraki í íbúðarhúsnæði verulegu máli því kjöraðstæður geta skapast innandyra á stöðum eins og baðherbergjum, þvottaherbergjum, kjöllurum, bílskúrum og víðar. Þá geta léleg loftskipti ýtt undir myndun myglusveppa og því þarf að gæta þess að útloftun eða loftræsting sé góð. Ef sveppurinn nær sér á strik getur hann haft neikvæð áhrif á heilsu fólks, sem er misberskjaldað fyrir áhrifum hans.

Jafnframt er mikilvægt að auka fræðslu og vitund fólks um þennan óboðna gest og það flókna samspil sem á sér stað í aðdraganda myglumyndunar. Sömuleiðis þarf að hvetja til rannsókna sem og efla gerð leiðbeininga vegna mannvirkjahönnunar og -gerðar. Skoða þarf hvort efla þurfi eftirlit með því að ákvæðum reglugerða á sviði byggingarmála sé framfylgt ásamt því hvort ástæða sé til að skerpa á lögum og reglum á viðkomandi sviði sem og lagaumhverfi vátrygginga og ábyrgðar. Því er brýnt að umræðan sé á þverfaglegum grunni svo heildstæð niðurstaða og lausn fáist til framtíðar.




Skoðun

Skoðun

Nálgunarbann

Fjölnir Sæmundsson,Sonja Ýr Þorbergsdóttir skrifar

Sjá meira


×