Nú er það körfuboltinn sem á sviðið. Karlalandsliðið tryggði sér farseðil á EM 2015 á miðvikudagskvöldið og var ákaft fagnað í fullri Laugardalshöll. Eftir tvo flotta sigra á Bretum og tvo góða leiki gegn firnasterku liði Bosníu tókst það sem margir í körfuboltahreyfingunni héldu að þeir myndu aldrei upplifa: íslenskt landslið á stórmóti. Menn og konur sem hafa verið viðloðandi íþróttina í áratugi leyfðu sér vart að dreyma um að upplifa þennan dag.
Ólafur breytti öllu
Draumurinn var ævintýralega fjarlægur, og það tengdist ekki bara getu íslenska liðsins. Í flestum íþróttum „slysast“ minni þjóðir reglulega inn á stórmót, en það var ekki gert mögulegt í körfuboltanum á árum áður.
Aðeins sextán lið tóku þátt í lokakeppni EM og undankeppninni var skipt í A- og B-deildir. Stóru liðin spiluðu sín á milli um hvaða lið komust í lokakeppnina og minni spámenn fengu að spila innbyrðis um hvaða lið yrði fallbyssufóður fyrir stóru strákana í næstu undankeppni.
En þessu breytti einn maður. Þegar Ólafur Rafnsson heitinn, fyrrverandi forseti ÍSÍ, var kjörinn formaður evrópska körfuknattleikssambandsins, FIBA Europe, var það hans fyrsta verk að gera undankeppnina líkari þeim sem þekkist í knattspyrnunni og handboltanum. Þannig var stéttaskiptingunni útrýmt á sögulegum fundi sambandsins í lok maí 2010.
Allt í einu máttu minni þjóðirnar eiga von á stórþjóðum í heimsókn. Þetta opnaði ekki bara möguleika þeirra á farseðli á EM, þó leiðin væri að sjálfsögðu áfram erfið, heldur var þetta líka leið til að upphefja körfuboltann um álfuna.
Þegar öllu er á botninn hvolft var það þessi breyting, sem Ólafur barðist svo hart fyrir, sem hjálpaði íslenska liðinu á EM. Það var ekki að ástæðulausu að framkvæmdastjóri KKÍ, Hannes S. Jónsson, þakkaði Ólafi heitnum fyrir sitt framlag í beinni útsendingu á RÚV eftir leikinn gegn Bosníu.

Ekki misskilja mig. Leikmennirnir eiga allan heiður skilinn fyrir frammistöðu sína. Hlynur Bæringsson fékk okkur enn og aftur til að efast um að hann væri frá þessari plánetu, Haukur Helgi Pálsson og Martin Hermannson stimpluðu sig inn sem stjörnur í liðinu og Jón Arnór Stefánsson… Já, Jón Arnór. Hvað getur maður sagt?
En þessir ágætu menn, og öll körfuboltahreyfingin, veit að þessi draumur hefði aldrei orðið að veruleika væri ekki fyrir Ólaf Rafnsson og baráttu hans fyrir opinni undankeppni.
Hann sannfærði stórþjóðir í Vestur-Evrópu um ágæti þessarar ákvörðunar og barðist gegn austurblokkinni sem vill ekki sjá það að spila við minnipokamenn eins og Íslendinga. Hann barðist fyrir sínu og breytti landslagi evrópsks körfubolta um aldir alda.
Fyrirsögnin hér að ofan vísar til kveðju íslensku þjóðarinnar til eins merkasta íþróttamanns Íslands fyrr og síðar, Ólafs Stefánssonar. Nafni hans, Ólafur Rafnsson, er á sinn hátt einn merkasti starfsmaður íþróttahreyfingarinnar og arfleifð hans er eitthvað sem íslenska þjóðin getur notið saman næsta sumar, þegar strákarnir okkar verða á meðal 24 bestu þjóða heims í lokakeppni Evrópumótsins.