Körfubolti

„Stoltið sem fylgir því að verja sinn heima­völl verður að vera til staðar“

Aron Guðmundsson skrifar
Ægir Þór Steinarsson að rífa Hilmar Smára Henningsson upp
Ægir Þór Steinarsson að rífa Hilmar Smára Henningsson upp Vísir/Jón Gautur

Ægir Þór Steinars­son, fyrir­liði Stjörnunnar, segir stoltið sem fylgir því að verja sinn heima­völl verða að vera til staðar þegar að liðið tekur á móti Tindastól í öðrum leik úr­slita­ein­vígis Bónus deildar karla í körfu­bolta í kvöld. Tindastóll leiðir ein­vígið 1-0 eftir spennu­trylli í Síkinu á dögunum.

„Beint eftir leik vorum við særðir og með eftir­sjá gagn­vart ákveðnum at­vikum í leiknum þar sem að við hefðum geta gert betur svo bara líður tíminn og það var bara stemning í rútunni á leiðinni heim og menn bjartsýnir á verk­efnið,“ segir Ægir Þór í sam­tali við íþrótta­deild en mögnuð endur­koma Tindastóls á loka­andar­tökum fyrsta leiks ein­vígisins sigldi heim þriggja stiga sigri þeirra.

Það var margt gott við leik Stjörnunnar í þeim leik sem þeir taka með sér í næstu orrustu ein­vígisins.

„Þegar að maður lítur heilt yfir þetta, skoðar upp­tökur af leiknum og fer að greina hvað við getum gert betur þá fyllist maður bara sjálf­s­trausti og trú á verk­efnið. Það er ferlið sem milli leikja, ferli sem hefur í raun verið til staðar í gegnum alla úr­slita­keppnina.“

Að­spurður hvað mætti helst betur fara hjá Stjörnumönnum í leik kvöldsins hafði Ægir Þór þetta að segja:

„Mér fannst við gera nokkuð fína hluti sóknar­lega en ég held að ein­beiting á ögur­stundu varnar­lega er einn af þeim hlutum sem við þurfum að gera betur. Við settum okkur ákveðnar reglur og fylgdum þeim ekki nægi­lega vel eftir síðustu mínúturnar. Enn og aftur snýst þetta bara um ein­beitingu og að vera aðeins meira á tánum þegar líður á leikinn. Þá held ég að við getum siglt þessu heim.“

Mikilvægi hvers leiks í þessu úr­slita­ein­vígi er gífur­legt en Stjarnan heldur inn í leik tvö 1-0 undir og fari svo að Tindastóll sigri í kvöld yrði róðurinn ansi þungur fyrir Garðbæinga, þeir vilja ekki að það raun­gerist.

„Þetta er leikur tvö, þú ert á heima­velli og stoltið sem fylgir því að verja sinn heima­völl verður að vera til staðar. Þú verður að berjast fyrir hverjum einasta bolta, taka eitt at­riði í einu. Það er það sem skiptir máli, horfa ekki of langt fram veginn og fagna því að vera með stemninguna með þér í liði, vera í húsinu sem þú æfir í og hafa sjálf­s­traust til þess að vinna leikinn. Í því felst mikilvægið finnst mér.“

Að­spurður hvernig leik hann búist við í kvöld er það til­finning Ægis að hver leikur hafi sína eigin sögu.

„Leikirnir verða alltaf ein­hvern veginn breyttir en ég tel að svipað verði upp á teningnum og í fyrsta leik. Þetta verður mjög hraður og líkam­legur leikur, ein­hverjar breytingar hér og þar en allir þessir leikir í úr­slita­keppninni hafa ein­kennst af stemningu og alls konar. Líka eins og með þetta Tindastóls lið, það getur ein­hvern veginn allt gerst og þú þarft að halda ein­beitingu þegar að þeir komast á eitt­hvað skrið eða ekki. Þú verður alltaf að vera á tánum, mér finnst það vera það helsta ein­kenni leiks á móti Tindastóls. Að halda ein­beitingu allan tímann.“

Stjörnu­menn hafa lagt mikið á sig til þess að vera komnir alla leið í úr­slita­ein­vígið en þeir eru hvergi nærri hættir.

„Við erum náttúru­lega mjög þakk­látir fyrir það og tökum því ekki sem sjálfsögðum hlut, að vera í úr­slitum og höfum verið að stefna að þessu lengi í Stjörnunni. Við erum þakk­látir og á sama tíma mjög meðvitaðir um að nýta þetta tækifæri sem best, að vera í úr­slitunum og taka dolluna. Við vitum að við þurfum að eiga mjög góða leiki á móti Tindastól til að það gangi upp.“

Leikur tvö í úr­slita­ein­vígi Stjörnunnar og Tindastóls í Bónus deild karla í körfu­bolta hefst klukkan korter yfir átta í Um­hyggju­höllinni í Garða­bænum í kvöld. Leikurinn er sýndur í beinni út­sendingu á Stöð 2 Sport en upp­hitun með Stefáni Árna og sér­fræðingum hans hefst 45 mínútum fyrir leik, nánar til­tekið klukkan hálf átta.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×