Líkt og kom fram í Púlsinum fyrr í vikunni tjáði Noel Gallagher sig um hljómsveitina Alt-J og sagðist aldrei gerast aðdáandi þeirra þrátt fyrir að kunna vel að meta eitt og eitt lag. Ástæðuna sagði hann vera að einn meðlimur Alt-J skarti yfirvaraskeggi og slíkt sé óásættanlegt. Meðlimir Alt-J hafa nú tjáð sig um þessa yfirlýsingu Noel Gallagher og virðast vera hæstánægðir með þetta. En þeir sögðu að það væri mikið hrós að komast inn á radarinn hjá Gallagher sérstaklega í ljósi þess að þeir sögðu í upphafi ferils síns að takmarkið væri að verða nógu stórt nafn til að fá Noel Gallagher til að móðga sig og nú hefur það tekist. En hljómsveitin Alt-J mun að sjálfsögðu koma fram í Vodafonehöllinni í sumar og er miðasala í fullum gangi á midi.is

Eins og kom fram í Púlsinum í gær var nokkuð óþekkt þungarokkhljómsveit sem tók sig til og framdi skemmdarverk á gröf gítarleikarans Dimebag Darrell sem gerði einmitt garðinn frægan með Pantera. Nú hefur manneskjan sem bar ábyrgð á skemmdarverkunum stigið fram og beðist afsökunar á gjörðum sínum. En það var Reece Eber, söngari Nuclear Hellfrost, sem skrifaði afsökunarbeiðni á Facebook síðu sína þar sem hann sagði að verknaðurinn væri það heimskulegasta sem hann hafi gert um ævina og þá tók hann einnig fram að hann hafi verið einn að verki og hljómsveitarfélagar hans ættu engan þátt í þessu. Hann sagðist jafnframt sjá gríðarlega eftir þessu og mun eflaust gera það út ævina. Hljómsveitin Nucelar Hellfrost hefur einnig sent frá sér yfirlýsingu þar sem fram kemur að þeir tengjast verknaðinum ekki og Reece Eber sé ekki lengur söngvari þeirra.