Veðrið á landinu hefur sett svip sinn á veturinn og eru margir Íslendingar komnir með nóg, en ekki bölva allir þeim rokrassi sem Ísland er.
Til er fyrirtæki sem skipuleggur dagsferðir þar sem farið er með ferðamenn út þegar veður eru vond og þeim leyft að upplifa rokið. Miklu meiri eftirspurn en framboð er eftir slíkum ferðum. Kormákur Hermannsson er einn aðstandenda þessa fyrirtækis sem heitir Stormhike. Þeir fara á stjá þegar venjulegum ferðum er aflýst og það hefur verið nóg að gera uppá síðkastið.
„Þessar ferðir ganga í raun út á það að veita fólki innsýn inn í vonda veðrið og gera það á svona þokkalega öruggan hátt,“ segir Kormákur.

Mikil eftirspurn er eftir þessu, þegar vont er veður og það hefur ekki skort í vetur. Þetta verður hins vegar að vera tiltekin tegund af vondu veðri, til dæmis var veður á laugardaginn síðasta of vont, en þeir sem standa að Stormhike eru björgunarsveitarmenn, og þeir voru þá uppteknir í útköllum.
En, þegar ferðafólk er fast í lobbíum, þá mæta þeir og fara með fólk út í vont veður, ekki með stóra hópa, með litlum fyrirvara og margir leiðsögumenn eru í hverri ferð sem kostar tæpar 15 þúsund krónur.
„Þeim finnst þetta mjög spennandi og þetta er mjög óvenjulegt fyrir gríðarlega marga. Ferðamönnum finnst þetta vera nokkuð óhuggulegt. Þeir eru bæði forvitnir og líka smá smeykir.“