Sepp Blatter, forseti FIFA, hélt ræðu við upphaf ársþings UEFA í dag þar sem hann sagði það vera tilgangslaust fyrir hvern sem er að sniðganga næstu heimsmeistaramót í Rússlandi og KAtar.
Næstu mót hafa verið mikið gagnrýnd af ýmsum ástæðum, en allt byrjaði það þegar í ljós kom að bæði lönd keyptu sér atkvæði í kosningunni á sínum tíma.
Síðan þá hefur stefna Rússa gegn samkynhneigðum og almenn mannréttindabrot verið harðlega gagnrýnd um allan heim sem og spillingin í landinu. Í Katar hefur vitaskuld nútíma þrælahald sætt mikilli gagnrýni en óboðlegt er hvernig komið er fram við verkamenn þar í landi.
Stjórnmálamenn landa út um allan heim hafa kallað eftir því að landslið sín sniðgangi HM 2018 í Rússlandi og HM 2022 í Katar en Blatter finnst lítið til þess málflutnings koma.
„Fótboltinn á að standa saman. Íþróttir ættu að standa saman þegar kemur að því að sniðganga viðburði. Það að sniðganga mót hefur aldrei skilað neinum árangri. Við verðum að fara á þessa staði,“ sagði Blatter í ræðu sinni í dag.
„HM í Rússlandi mun hjálpa til við að stilla til friðar í þeim hluta Evrópu. Ég er viss um að fótboltinn er sterkari en nokkur önnur hreyfing,“ sagði Sepp Blatter.
