Sigmundur Davíð mætti í Tryggvaskála á Selfossi síðdegis, ásamt öðrum ráðherrum úr ríkisstjórninni og þingmönnum kjördæmis, ásamt fjölda annarra gesta til að opna sýningu á nýja miðbænum. Sýningin verður opin öllum á morgun.
Leó Árnason Selfyssingur er maðurinn á bakvið hugmyndina. „Okkar hugmyndir eru að fara aðrar leiðir en áður hafa verið farnar, byggja upp sögubæinn á Selfossi með áður horfnum húsum, þ.e. byggja horfin hús, þó aðallega hér á Selfossi og í Árborg. Með þessu viljum við draga athyglina á Selfoss þannig að hingað sæki ferðamenn, fyrirtæki komi og hér verð blómleg uppbygging,“ segir Leó.

Hann segir að uppbyggingin kosti um tvo milljarða króna. Sigmundur Davíð segist vera mjög hrifin af nýja miðbæ Selfyssinga.
„Þetta er algjörlega frábært og mun skipta sköpum, ekki bara fyrir þetta sveitarfélag heldur Suðurland allt og fyrir Ísland mun þetta hafa mjög jákvæð áhrif verði þetta að veruleika,“ segir Sigmundur Davíð og bætir við:
„Það sem skiptir öllu málið er að þetta sé vandað og að menn séu að byggja fallegar vandaðar byggingar sem mynda eina heild og þetta fellur svo sannarlega að því“.
Þegar Sigmundur Davíð var spurður hvort hann hefði áhuga á að flytja á Selfoss með tilkomu nýs miðbæjar sagði hann: „Það getur vel endað með því“.
Hér er hægt að sjá nýja miðbæinn