Gögn úr seinni flugrita Germanwings-vélarinnar sem brotlenti í frönsku ölpunum þann 24. mars síðastliðin, staðfesta að um viljaverk var að ræða. Aðstoðarflugmaður vélarinnar, Andreas Lubits, læsti flugstjórann fyrir utan flugstjórnarklefann og flaug vísvitandi á fjall svo 150 manns létust.
Þetta kemur fram á vef Independent.
Flugritinn fannst í gær eftir mikla leit, en annar flugriti sem geymdi upptökur úr flugstjórnarklefanum fannst tiltölulega fljótt eftir slysið. Þar má heyra flugstjórann berja á hurðina og biðja Lubitz um að hleypa sér inn. Lubitz hins vegar opnaði hurðina ekki og stillti sjálfsstýringu vélarinnar á hundrað feta hæð. Það tók rúmar átta mínútur fyrir vélina að brotlenda.
Í gær sögðu rannsakendur frá því að Lubitz hefði notað spjaldtölvu sína til að kynna sér aðferðir til að fremja sjálfsmorð og ýmis atriði öryggishurðanna sem eru á flugstjórnarklefum.
AP fréttaveitan segir frá því að Lubitz hafi sífellt aukið hraða vélarinnar undir lokin og komið í veg fyrir að viðvörunarbjöllur færu í gang. Þess vegna eru rannsakendur sannfærðir um að hann hafi verið með meðvitund þar til yfir lauk. Vélin lenti á bröttu fjalli á um 700 kílómetra hraða.
