Stærsta bardagakvöld ársins fer fram þann 11. júlí næstkomandi í Las Vegas. Kvöldið er haldið á MGM Grand-hótelinu og er pláss fyrir hátt í 17 þúsund manns í salnum.
Aðalnúmer kvöldsins er Írinn og Íslandsvinurinn Conor McGregor en hann berst um titilinn í fjaðurvigt við Brasilíumanninn Jose Aldo.
Gunnar Nelson verður einnig á meðal keppenda á þessu risakvöldi en hann mun þreyta frumraun sína í Bandaríkjunum gegn Englendingnum John Hathaway.
Miðar á þetta risakvöld eru ekki ókeypis. Ef fólk vill sitja niðri á gólfi og vera í návígi við búrið þá kostar miðinn litlar 305 þúsund krónur.
Ef menn hafa almennt ekki efni á því þá er hægt að fá sæti þar fyrir aftan á 100-150 þúsund krónur. Þeir sem sætta sig við að vera bara á staðnum og fylgjast með upp í rjáfri þurfa að greiða fyrir það 55 þúsund krónur.

