Samtökin hafa gefið út að öll hof og styttur sem hylli „heiðnum guðum“ verði eyðilögð.
Samkvæmt Al-Jazeera hefur Íslamska ríkið birt myndir sem sýna gereyðileggingu hofanna og er talið að þau hafi verið sprengd á laugardaginn. Annað hofið var byggt fyrir um fimm hundruð árum síðan.
Fregnir bárust nýverið af því að ISIS hefði komið fyrir sprengjum í rústum borgarinnar Palmyra, en hermenn ríkisstjórnar Sýrlands sitja nú um borgina. Mögulega vildu vígamennirnir reyna að koma í veg fyrir árás hersins með því að hóta því að eyðileggja rústirnar, sem eru á fornminjaskrá UNESCO.
Sjá einnig: ISIS sækir að fornum rústum
Samkvæmt UNESCO myndaðist Palmyra í kringum vin í eyðimörkinni, en Rómverjar tóku þar völdin á fyrstu öld. Flestar rústirnar eru frá þeim tíma, en borgin stóð á landamærum menningarheima og var hún byggð í stíl sem blandar saman grísk-rómverskum áhrifum við persnesk.
Áður en borgarastyrjöldin hófst í Sýrlandi fyrir um fjórum árum, voru rústirnar helsti ferðamannastaður Sýrlands.