Skoðun

Nánasarlegt heildarframlag

Kristín Þorsteinsdóttir skrifar
Reynsla af flóttafólki á Íslandi er góð. Hingað  hafa verið boðnir örfáir hópar kvótaflóttafólks á sextíu árum. Fyrst nokkrir tugir Ungverja og hópur Júgóslava á sjötta áratugnum. Fáeinir hópar bátafólks frá Víetnam komu á áttunda og níunda áratugnum. Við bættist fólk sem flúði hildarleikinn á Balkanskaga rétt fyrir aldamótin.

Síðan hefur verið tekið á móti fáum en smáum hópum, einkum frá botni Miðjarðarhafsins. Við bætast einstaklingar, sem telja má á fingrum sér, frá stríðshrjáðum Afríkuríkjum, Afganistan og Írak. Alls eru þetta á sjötta hundrað manneskjur. Það er lág tala í öllum samanburði. Vandinn er risavaxinn. Milljónir hrekjast allslausar frá heimilum sínum ár hvert í leit að mannsæmandi lífi.

Í Sýrlandi virtist flest leika í lyndi fyrir fáum árum. Stór og vel menntuð millistétt taldi sig búa við öryggi og hagsæld. Damaskus, höfuðborgin, þótti aðlaðandi heimsborg, sem æ fleiri heimsóttu. Múslimskur meirihluti, kristinn minnihluti og þjóðarbrot gyðinga lifðu þar í prýðilegri sátt. Örlög Sýrlendinga eru vitnisburður um óbærilegan hverfulleika mannlífsins.

Hlutur Íslands í flóttamannahjálp er skorinn við nögl. Sama á við um opinber framlög til mannúðarmála, sem eiga að styðja flóttafólk nálægt heimaslóðum í von um að það geti snúið heim. Við erum eftirbátar allra þjóða sem við erum efnahagslega samskipa.

En heimildir herma að gestrisni fórnfúsra sjálfboðaliða, sem Rauði krossinn þjálfar í samvinnu við sveitarfélög, sé til mikils sóma. Verklagið sé til eftirbreytni. Fjöldi fólks um allt land er reiðubúið að halda merkinu á lofti. Við getum því hæglega tekið á móti miklu fleira

flóttafólki.

Heildarframlagið er nánasarlegt en framlag einstakra byggða rausnarlegt. Ísfirðingar, Hornfirðingar, Siglfirðingar, Blönduósbúar, Dalvíkingar, Skagamenn og Fjarðabyggðarfólk hafa tekið á móti hópum, sem munar um. Þrjátíu stríðshrjáðir einstaklingar frá framandi landi setja svip sinn á þúsund manna bæjarfélag. Ekki ber á öðru en að reynsla heimafólks sé góð. Aðkomufólkið hafi auðgað bæjarbraginn og lifað í sátt og samlyndi við nýja granna sína. Langflestir hafa spjarað sig vel í lífsbaráttunni.

„Á móti okkur tók yndislegasta fólk sem ég hef á ævinni fengið að kynnast,“ skrifar Jovana Schally, háskólanemi, á Facebook. Hún var barn í hópi serbneskra flóttamanna sem settust að á Ísafirði fyrir tuttugu árum. Hópurinn hefur ílengst og í honum er að finna verðandi lækna, kennara, sálfræðinga, lögfræðinga, félagsráðgjafa og stjórnmálafólk, einstaklinga sem munu ef að líkum lætur endurgjalda samfélaginu allan kostnað við komu þeirra og stuðning fyrstu skrefin – og gott betur!

Breska vikuritið Economist kemst að þeirri niðurstöðu í nýlegri úttekt að oftar en ekki sé beinlínis efnahagslegur ávinningur af því að taka á móti flóttafólki. Það kemur sjálfboðaliðum á íslenskri landsbyggð ekki á óvart.




Skoðun

Skoðun

Nálgunarbann

Fjölnir Sæmundsson,Sonja Ýr Þorbergsdóttir skrifar

Sjá meira


×