„Ég er ótrúlega þakklátur fyrir að hafa fengið að upplifa þetta með þessu liði. Ekki bara strákunum heldur læknateyminu, sjúkraþjálfaranum, stjórninni og öllum í kringum landsliðið.“
Um eitt þúsund stuðningsmenn Íslands mættu til Berlínar og hvöttu okkar stráka með ráðum og dáðum. Jón Arnór segir liðsfélaga sína hjá Valencia strax hafa haft orð á því hve magnaður stuðningurinn var á leikjum íslenska liðsins.
Jón Arnór Stefánsson er í ítarlegu viðtali í helgarblaði Fréttablaðsins. Þar ræðir Jón um ástina, NBA-ævintýrið, eltingaleikinn við stúdentsprófið og ástæðu þess að hann hafnaði á lista með hryðjuverkamönnum.

„Þeim fannst þetta ótrúlegt,“ segir Jón Arnór. Landsliðið hafi sömuleiðis unnið sér inn virðingu hjá stuðningsfólki og leikmönnum víða. Á Spáni hafi allir tekið eftir þeim enda liðið í sama riðli og Ísland. Spánverjar leika einmitt til úrslita á EM á morgun.
„Rafa Martinez (reynslubolti hjá Valencia) spurði hvað væri eiginlega málið með þennan númer átta?“ segir Jón Arnór hlæjandi. Hlynur Bæringsson er sá er um ræðir en Borgnesingurinn veitti stóru köllunum undir körfunni í hinum liðunum mikla keppni og hirti hvert frákastið á fætur öðru þrátt fyrir að vera höfðinu lægri en risar mótherjanna.
„Þessi gæi á að spila á Spáni,“ hefur Jón Arnór eftir Martinez liðsfélaga sínum.
Að neðan má sjá þegar Jón Arnór var kynntur til leiks hjá Valencia BC í dag.