Mohammed Reza Moghadam er 27 ára Kúrdi frá Íran sem hefur verið á flótta frá heimalandinu í átta ár.
Hann hefur nú dvalið á Íslandi í ár en nú hefur verið úrskurðað í máli hans og hann verður sendur aftur til Noregs, þar sem hann dvaldi áður. Félagi hans, Mehdi Netsyati Padarsan, var veikur og gat því ekki verið viðstaddur prédikunina í morgun en Kristín Þórunn Tómasdóttir gerði flóttamenn að sérstöku umtalsefni í prédikuninni og kallaði Reza upp að altarinu og þakkaði honum fyrir samveruna.

Reza segist ekki hafa fengið neina pappíra þau ár sem hann dvaldi í Noregi og hann hafi því ekki getað haldið áfram með líf sitt í átta ár. Hann hefur háskólapróf í stærðfræði, en getur ekki unnið, ekki haldið áfram námi, ekki stofnað fjölskyldu. Hann segist ekki eiga sér neitt líf.
Til viðbótar sé farið með hann eins og glæpamann. Lögreglan sé væntanleg á hverri stundu til að handtaka hann og flytja hann úr landi, til Noregs.
Toshiki Toma segir að ýmislegt gerist í lífi fólks á átta árum. Líf Reza hefur þó verið sett á bið. Það þurfi að skoða mál Reza með hliðsjón af mannréttindum hans, ekki bara vegna þess sem skeði í Íran, heldur til líka með tilliti til dvalarinnar í Noregi.