Bráðabirgðaviðgerð á brúnni yfir Eldvatn hjá Ásum, sem skemmdist í Skaftárhlaupinu, er talin kosta tugi milljóna króna. Vegagerðin metur nú í samráði við Viðlagatryggingu Íslands hvort skynsamlegra sé að dæma brúna ónýta og reisa nýja.
Þegar ákafinn sást í þessu mesta Skaftárhlaupi sögunnar að morgni 2. október var brúnni yfir Eldvatn lokað en hún er aðaltenging sveitabæja í Skaftártungu við hringveginn og þéttbýlið á Kirkjubæjarklaustri. Þegar hlaupinu slotaði sást að áin hafði brotið niður hamravegginn á löngum kafla í kringum brúarstæðið og hluti eystri brúarstöpulsins stendur nú í lausu lofti
„Brúin er verr farin eftir þessi átök en við töldum í fyrstu og þarf að skoða ástandið enn betur til að fá fullvissu um ásigkomulagið,“ segir G. Pétur Matthíasson, upplýsingafulltrúi Vegagerðarinnar, í svari við fyrirspurn fréttastofu.

Vegagerðin lét bora könnunarholur undir brúarsporðinn í síðustu viku og sýna þær að jarðlögin undir eru veik og kalla á grjótvörn. Í næstu viku er ætlunin að dýptarmæla ána undir brúnni til að unnt sé að meta hvað grjótvörn kostar, sem og annar stuðningur við stöpulinn, að sögn Guðmundar Vals Guðmundssonar, brúarverkfræðings hjá Vegagerðinni. Þá vonast menn jafnframt til að geta metið hvort hægt sé að leyfa takmarkaða umferð léttari bíla um brúna.
„Það verður ekki opnað á næstunni, ekki fyrr en menn eru vissir um öryggið. Það er verið að reikna burðarþol, skoða stöðugleika stöpulsins að austan og fleira,“ segir Pétur.

Guðmundur Valur segir ljóst að bráðabirgðaviðgerð kosti ekki undir 20 milljónum króna, hugsanlega eitthundrað milljónir, og hún myndi ekki verja brúna fyrir öðru Skaftárhlaupi af sömu stærð.
Hann segir brúna tryggða hjá Viðlagatryggingu. Þegar kostnaðarmat á bráðabirgðaviðgerð liggi fyrir verði ákveðið hvort viðgerð svari kostnaði eða hvort skynsamlegra sé að dæma brúna ónothæfa og hefja undirbúning að smíði nýrrar.

