Forseti Íslands Ólafur Ragnar Grímsson hefur sent samúðarkveðjur frá sér og íslensku þjóðinni til Vladimirs Putin forseta Rússlands í kjölfar þess að rússnesk flugvél hrapaði til jarðar yfir Egyptalandi og 224 farþegar týndu lífi.
Allir farþegar vélarinnar létust er hún brotlenti á Sínaí-skaga. Af farþegum vélarinnar voru 214 þeirra frá Rússlandi og þrír frá Úkraínu.
Brak úr vélinni hefur fundist, en hún hvarf af ratsjám í 9.500 metra hæð, 23 mínútum eftir flugtak. Um var að ræða A-321 Aribus flugvél frá flugfélaginu Kogalymavia, eða Metrojet.
Slysið er það mannskæðasta í sögu Rússlands, sem og Sovétríkjanna, Pútín hefur gert embættismönnum að fljúga til Egyptalands og hjálpa til við björgunarstörf. Þá hefur forsetinn lýst yfir að í dag verði þjóðarsorg í Rússlandi.
Samkvæmt AP fréttaveitunni hafði flugmaður vélarinnar tilkynnt tæknilega örðugleika skömmu áður en flugumferðarstjórar misstu samband við vélina. Flugmaðurinn sagðist ætla að lenda vélinni á næsta flugvelli. Flugvélin brotlenti í um 50 kílómetra fjarlægð frá El Arish flugvellinu, þar sem flugmaðurinn ætlaði að framkvæmda nauðlendingu.
Samúðarkveðjan frá íslensku þjóðinni lýkur á orðunum: „Hugur okkar og bænir séu hjá fjölskyldum þeirra sem létu lífið.“
Ólafur vottar Pútín samúð þjóðarinnar
Stefán Ó. Jónsson skrifar