Samningafundi í kjaradeilu starfsmanna álversins í Straumsvík lauk rétt fyrir klukkan tólf í dag, án niðurstöðu. Hann hafði þá staðið yfir tæpa klukkustund, og hefur nýr fundur ekki verið boðaður. Fyrirhugað verkfall skellur á eftir tvo daga, takist ekki samningar.
Fundur stendur nú yfir innan samninganefndar starfsmanna álversins, að sögn Gylfa Ingvarssonar, talsmanns nefndarinnar. Hann sagðist í samtali við fréttastofu fyrir fundinn nokkuð vondaufur um árangur. Þó liggi fyrir samkomulag um launahækkanir til mikila meirihluta starfsmanna, en að greinilegt sé að eitthvað annað en launadeila vaki fyrir Rio Tinto.
Verkfall starfsmanna álversins í Straumsvík hefst annan desember næstkomandi, náist ekki sátt. Það jafngildir því að verinu verði lokað, og óvíst er hvort það verði opnað aftur að nýju.

