Gunnar Nelson sat fyrir svörum á fjölmiðladegi UFC 194 í gær en þetta risabardagakvöld hefst klukkan 3.00 aðfaranótt sunnudags og verður í beinni útsendingu á Stöð 2 Sport HD.
Gunnar mætir þar Brasilíumanninum Demian Maia í stærsta bardaga síns ferils og sama kvöld berst góðvinur Gunnars og Íslandsvinurinn Conor McGregor við Jose Aldo um heimsmeistaratitilinn í fjaðurvigt.
Sjá einnig:Víkingaför Gunnars Nelson um heiminn
Okkar maður var silkislakur er hann ræddi við hvern fjölmiðilinn á fætur öðrum í gær og ein ummæli hans vöktu svo mikla athygli að þau voru kjörin þau þriðju bestu á Youtube-síðu UFC.
Gunnar talaði þar um leið sína á toppinn og sigrana á leiðinni. Hann segir þetta ekki bara snúast um að vinna hvern mótherjann á fætur öðrum heldur þarf að vera stíll yfir sigrunum.
Sjá einnig:Þetta er maðurinn sem ætlar að vinna Gunnar Nelson á laugardaginn
„Það sem skiptir meira máli en að vinna er hvernig þú vinnur. Þú getur unnið fullt af bardögum í UFC en aldrei verið nálægt titilbardaga,“ sagði Gunnar.
„Síðan geturðu unnið bara nokkra og verið nálægt. Það fer allt eftir því hverja þú vinnur og hvernig þú gerir það,“ sagði Gunnar Nelson.
Ummæli Gunnars má heyra eftir 40 sekúndur í myndbandinu hér að ofan.
