Sepp Blatter, forseti FIFA, og Michel Platini, forseti UEFA, hafa báðir verið dæmdir í átta ára bann frá knattspyrnu en siðanefnd Alþjóðaknattspyrnusambandsins hefur lokið rannsókn á mútumáli tengdum þeim báðum.
Sepp Blatter hefur verið forseti FIFA frá árinu 1998 og var endurkjörinn í maí en var búinn að tilkynna það að hann muni hætta í febrúar á næsta ári.
Það benti allt til þess að hinn sextugi Michel Platini yrði framtíðarleiðtogi fótboltans og hafði sjálfur stefnt á það að taka við forsetastólnum af Blatter.
Platini var þrisvar sinnum valinn besti knattspyrnumaður Evrópu á sínum tíma og var fyrirliði Evrópumeistaraliðs Frakka frá 1984. Hann hefur verið forseti UEFA frá árinu 2007.
Þeir félagar eru dæmdir fyrir það að Blatter greiddi Platini 1,3 milljón punda eingreiðslu árið 2011 rétt áður en Blatter var endurkjörinn sem forseti FIFA í þriðja sinn.
Báðir héldu því fram að Blatter hafi þarna verið að efna samkomulag þeirra félaganna frá 1998 og greiða fyrir vinnu Michel Platini frá 1998 til 2002 þegar Frakkinn starfaði sem tæknilegur ráðgjafi Sepp Blatter.
Samningurinn var hvergi til skriflegur en Blatter og Platini nefndu báðir munnlegt samkomulag þeirra í milli. Slíkur samningur er tekinn gildur í Sviss en siðanefndin tók þessa málsvörn Blatter og Platini ekki gilda.
Blatter og Platini eru meðal annars dæmdir fyrir hagsmunarárekstur, falskt bókhald og ósamvinnuþýði á meðan rannsókninni stóð.
