
Þegar bankinn seldi 38 prósenta hlut sinn í Valitor til Arion banka þremur vikum síðar var hins vegar ákvæði að ef kaupum á Visa Europe yrði myndi Landsbankinn fá þær greiðslur.
Landsbankinn hefur hins vegar viðurkennt að hafa vitað að af kaupunum á Visa Europe gæti orðið.
Enda var greint frá málinu í fjölmiðlum víða um heim áður en tilkynnt var um sölu bankans á Borgun. Þá taldi Visa Inc. að Visa Europe myndu kosta yfir 10 milljarða dollara, um 1.300 milljarða króna.
Í lok árs síðasta árs var svo greint frá því að af kaupunum yrði og kaupverðið væri 21 milljarður evra, um 3.000 milljarða íslenskra króna. Upphæðin skiptist milli útgefenda Visa korta í Evrópu eftir umsvifum þeirra.
Landsbankinn seldi hlutinn í Borgun til hóps fjárfesta og stjórnenda Borgunar. Í apríl á síðasta ári, greiddi fyrirtækið 800 milljónir í arð til eigenda sinna, sem var fyrsta arðgreiðslan frá 2007
Landsbankinn segir ekki hafa fengið upplýsingar um hugsanleg réttindi í viðræðunum frá Borgun og þá hafi heldur Borgun ekki getið til um þær í ársreikningum sínum. „Stjórnendahópurinn sem var í viðræðum við Landsbankann hafði fengið leyfi stjórnar til að gefa upplýsingar um rekstur félagsins. Í viðræðunum við stjórnendur komu ekki fram neinar upplýsingar um að Borgun hefði rétt til hlutdeildar í verðmætum valréttarins, hvað þá að vegna hans hefðu skapast verðmæti hjá Borgun. Landsbankinn hefur enga ástæðu til að ætla að stjórnendur Borgunar hafi verið meðvitaðir um tilvist slíkra réttinda,“ segir á upplýsingavef bankans.
Þá segir Landsbankinn að þær greiðslur sem Borgun eigi von á hafi að mestu komið til vegna aukinna Visa viðskipta Borgunar erlendis á árinu 2015, eftir að bankinn seldi hlut sinn í Borgun. Landsbankinn hafi vitað af þessum áformum um vöxt erlendis og talið þau afar áhættusöm. „Að mati bankans fylgdi þeirri starfsemi veruleg áhætta og líkur voru taldar á að hún gæti leitt til tjóns hjá félaginu. Bankinn byggði þetta mat sitt m.a. á fyrri útrásarsögu íslenskra kortafyrirtækja.“
Landsbankinn mun að eigin frumkvæði afhenda Alþingi samantekt um málið.