Neytendur

Reikni­vél sem sýnir á­hrif breytingar á samsköttun

Magnús Jochum Pálsson skrifar
Daði Már Kristófersson er fjármála- og efnahagsráðherra og stendur fyrir breytingunni.
Daði Már Kristófersson er fjármála- og efnahagsráðherra og stendur fyrir breytingunni. Vísir/Ívar Fannar/Getty

Fjármála- og efnahagsráðuneytið hefur birt reiknivél til að sýna áhrif fyrirhugaðs afnáms samnýtingar skattþrepa hjóna og sambúðarfólks á greiðslu tekjuskatts.

Þetta kemur fram á tilkynningu á vef Stjórnarráðsins þar sem hægt er að prófa reiknivélina, slá inn tekjur hvors einstaklings fyrir sig og sjá hver áhrifin verða miðað við núgildandi reglur.

Í tilkynningunni segir að eitt af markmiðum nýrrar ríkisstjórnar sé að bæta skattskil, loka glufum og fækka undanþágum í skattkerfinu. Tillögur um þessi atriði muni koma fram í haust í frumvarpi til fjárlaga fyrir árið 2026. Ein slíkra breytinga sé niðurfelling ívilnandi reglu í lögum um tekjuskatt, um samsköttun hjóna og sambúðarfólks.

Með reiknivélinni er hægt að slá inn tekjur tveggja einstaklinga til sjá hvort samsköttun sé í fyrsta lagi virk. Sé hún það er hægt að sjá hver eftirgjöf tekjuskatts sé vegna samnýtingarinnar bæði á ársgrunni og á mánuði.

Tvö dæmi, annað þar sem báðir eru með 750 þúsund í tekjur og hitt þar sem annar er með 750 þúsund en hinn 1,4 milljón.

Samsköttun stuðli að kynjamisrétti

Reglan kom fyrst til framkvæmda árið 2011 og á við þegar annar einstaklingurinn er í efsta tekjuskattsþrepi en hinn nær ekki á sama tíma að fullnýta miðþrepið. Reglan heimilar þannig tilfærslu á tekjum úr efsta þrepi niður í miðþrep, en þó að ákveðnu hámarki.

„Eftirgjöf ríkissjóðs vegna þessarar reglu nam um 2,7 ma.kr. á tekjuárinu 2023. Millifæranlegur persónuafsláttur milli hjóna og sambúðarfólks fellur ekki undir fyrirhugaðar breytingar og verður heimill áfram með óbreyttu sniði,“ segir í tilkynningunni.

Þar kemur einnig fram að samkvæmt álagningargögnum Skattsins séu það um sex prósent einstaklinga sem eigi kost á samsköttun. Ívilnunin nái því til lítils minnihluta þeirra sem eru á skattskrá, þar af séu það yfir áttatíu prósent karlar sem nýti ónýtt miðþrep maka eða sambúðaraðila.

„Á þessu ári þarf annar aðili í hjónabandi eða skráðri sambúð að hafa yfir 15.901.523 kr. í árstekjur eða 1.325.127 kr. í mánaðartekjur til þess að reglan um samnýtingu skattþrepa taki gildi,“ segir í tilkynningunni.

Í minnisblaði frá fjármálaráðuneytinu segir að ráðstöfunin stuðli að kynjamisrétti og að fyrirhuguð breyting muni í langflestum tilfellum hafa áhrif á tekjuháa karla yfir fertugu en í mun minni mæli á barnafjölskyldur.


Tengdar fréttir

Segir afnám samsköttunar svik við kjósendur

Vilhjálmur Birgisson, formaður Starfsgreinasambandsins, segir afnám samsköttunar ekkert annað en dulbúna skattahækkun og svik við kjósendur. Í færslu á Facebook segir hann slíkar breytingar á skattkerfinu geta verið högg fyrir barnafjölskyldur.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×