Tilefnið er frétt Vísis þar sem segir af Gallupkönnun en niðurstöður eru þær að meirihluti aðspurðra er jákvæður gagnvart þeirri hugmynd að Baldur og eiginmaður hans Felix Bergsson, leikari og fjölmiðlamaður, verði næsta forsetapar Íslands.
Mikilvæg mannréttindabarátta
En, þó fólk sé almennt jákvætt gagnvart því að Baldur fari fram verður ekki svo að sinni. Baldur segir í samtali við Vísi ekki hafa verið vinnufriður eftir að fréttin birtist. En, svo áfram sé vitnað í yfirlýsinguna þá segir:
„Í dag vill svo skemmtilega til að 20 ár eru síðan að við hittumst fyrst. Við gátum þá ekki einu sinni skráð okkur í sambúð og börnunum okkar voru ekki tryggð full mannréttindi. Við tók áralöng barátta fjölmargra einstaklinga út um allt land sem skilað hefur góðum árangri. Okkur datt ekki einu sinni í hug að samkynhneigt part ætti möguleika á því að setjast að á Bessastöðum,“ skrifar Baldur og bætir því við að það hafi þótt stórsigur fyrir mannréttindabaráttuna þegar þáverandi forseti Vigdís Finnbogadóttir kom og fagnaði með þeim þegar lögin um staðfesta samvist tóku gildi sumarið 1996.
„Nú eru nýir og breyttir tímar. Þeim ber að fagna sem og kröftugum mannréttindayfirlýsingum þjóðarinnar sem birtast í skoðanakönnun eins og þessari. – Við endurtökum þakkir okkar fyrir hlý orð og hvatningu og hvetjum kraftmikla einstaklinga til að stíga fram og bjóða sig fram til embættisins.“
Margir kallaðir
Víst er að mörgum þótti vert að máta þá Baldur og Felix við Bessastaði. Baráttan um Bessastaði er rétt að hefjast en þeir sem hafa gefið sig fram og ætla í forsetaslag í sumar eru Þorgrímur Þráinsson, Ástþór Magnússon, Sturla Jónsson og Elísabet Jökulsdóttir -- eftir því sem næst verður komist.
Þau sem sterklega hafa verið orðuð við framboð eru meðal annarra Össur Skarphéðinsson, Linda Pétursdóttir, Stefán Jón Hafstein, Andri Snær Magnason, Sirrý Arnardóttir, Halla Tómasdóttir og Björg Thorarensen. Baldur er nú að heltast úr þeirri lest; fólks sem orðað er við framboð.