Landlæknisembættið hvetur þungaðar konur til að ferðast ekki til Mið- og Suður-Ameríku þar sem útbreiðsla Zika-veiru hefur verið hvað mest, nema brýna nauðsyn beri. Þá eru karlmenn sem hafa ferðast til þangað hvattir til að nota smokka í fjórar vikur eftir ferðalag.
Þetta kemur fram í nýjum leiðbeiningum landlæknis um varnir gegn Zika-veirunni. Veiran hefur herjað á íbúa í Mið- og Suður-Ameríku að undanförnu og hefur neyðarástandi verið lýst yfir á heimsvísu. Algengasta smitleiðin er talin vera með moskítóflugum en einnig hefur veiran fundist í sæði.
„Vegna skorts á þekkingu á smiti Zíkaveiru með kynmökum er karlmönnum ráðlagt að gæta ýtrustu varúðar þar til meiri þekking er til staðar. Karlmenn sem stunda kynlíf og hafa ferðast á svæðum i Mið- og Suður-Ameríku er ráðlagt að nota smokka í allt að 4 vikur eftir heimkomu,“ segir í leiðbeiningunum.
Sjá einnig:Hvað er Zika?
Vísbendingar eru um að veiran valdi alvarlegum fósturskaða og hafði embættið áður varað barnshafandi konur við ferðalögum til svæða þar sem veiran er landlæg. Hafi þeir ferðast til umræddra svæða er þeim ráðlagt að leita læknis eftir heimkomu, óháð því hvort þær hafi veikst eða ekki. Þá er þeim konum sem eru á þessum svæðum ráðlagt að vera með góðar varnir gegn biti moskítóflugna.
Talið er að um 80 prósent þeirra sem smitast af Zíkaveiru fái engin einkenni en hjá þeim 20 prósent sem veikjast þá eru algengustu einkennin hiti, útbrot, liðverkir og hvarmabólga. Einkennin vara frá nokkrum dögum upp í viku en leiða sjaldan til sjúkrahúsvistar. Í mjög sjaldgæfum tilvikum er talið að veiran geti valdið heilkenni bráðrar fjöltaugabólgu (Gullain-Barré syndrome).
Landlæknir: Karlmenn noti smokka eftir ferðalag til Mið- og Suður-Ameríku

Tengdar fréttir

Á fjórða þúsund þungaðar konur með Zika
Ekkert lát virðist á útbreiðslu Zika-veirunnar.

Þrjú dauðsföll rakin til Zika-veirunnar
Fyrstu dauðsföllin tengd veirunni.

Keníumenn hóta því að mæta ekki á ÓL í Ríó
Kenía verður mögulega ekki með íþróttamenn á Ólympíuleikunum í Ríó í Brasilíu vegna ótta manna þar á bæ við Zika veiruna.

Hvað er Zika?
Neyðarástandi hefur verið lýst yfir vegna Zika-veirunnar. En hvað er Zika og hvaða afleiðingar getur hún haft?

Fyrsta Zika smitið staðfest í Kína
Maðurinn sem smitaðist hafði nýlega ferðast til Suður-Ameríku.