Sunnlensku sveitarfélögin hafa nú þegar styrkt N4 fjárhagslega við gerð 36 þátta í seríunni Að sunnan þar sem áhersla er lögð á jákvæða umfjöllun um atvinnulíf og mannlíf á svæðinu.
„Við hjá N4 erum ykkur afar þakklát fyrir þann mikla og dygga stuðning sem sveitarfélögin fjórtán hafa sýnt þessari þáttaröð,“ segir í bréfi framkvæmdastjóra N4 sem einnig þakkar sunnlenskum fyrirtækjum fyrir auglýsingatekjur við gerð tólf þátta.

„Óskað er eftir áframhaldandi styrk við gerð þáttanna frá hverju sveitarfélagi, samtals krónur 750.000,“ segir framkvæmdastjóri N4 í bréfinu til sveitarfélaganna. Stefnt sé að gerð 36 þátta á tólf mánuðum.
Í bréfinu er bent á að þættirnir Að sunnan hafa verið tilnefndir til Edduverðlauna í flokknum Menningarþættir.
„Þetta er mikill heiður og ber fagmennsku Margrétar Blöndal og Sighvats Jónssonar gott merki,“ segir María Björk og biður um að vera látin vita sem allra fyrst svo hægt sé að semja við Margréti og Sighvat og svo hægt sé að tilkynna um framhald þáttanna á Eddunni sem fram fer á sunnudaginn. Margrét og Sighvatur eru bæði dagskrárgerðarmenn á RÚV.

Að sunnan var tilnefnt sem Menningarþáttur ársins á Edduverðlaunahátíðinni í gær, en laut í lægra haldi fyrir Öldinni hennar, sem hlaut verðlaunin.