Sara vill opna umræðuna um fordóma í garð aðstandenda glæpamanna og fanga hér á landi. Í gegnum tíðina telur hún sig hafa orðið fyrir aðkasti, kjaftasögum og fordómum, meðal annars frá lögreglu. Þá hefur hún margoft verið hvött til að skipta um nafn.
Hún segist muna vel eftir því þegar hún áttaði sig fyrst á því að pabbi hennar væri glæpamaður.
„Það var sem sagt vinkona mín sem sagði mér að pabbi minn væri að fara í fangelsi. Ég hafði ekki hugmynd um neitt. Ég var níu ára og var bara að hoppa á trampólíni með vinkonu minni og það var eins og ekkert væri eðlilegra fyrir henni: „Hvað finnst þér um að pabbi þinn sé að fara í fangelsi?“ Ég fór að gráta og fór heim,“ segir Sara sem segist ekki hafa áttað sig á því að pabbi hennar væri öðruvísi en aðrir pabbar.
„Hann var bara töffari. Ég fór bara heim og spyr hana [mömmu] hvort að pabbi minn sé að fara í fangelsi og þá var hún einmitt að fara að segja mér frá því. Hver hann væri, að hann væri að fara í fangelsi og hvað hann hafði gert en það var of seint. Hún útskýrði allt fyrir mér, sagði að hann væri samt góður maður, hann þyrfti bara að fara í fangelsi og hann hefði brotið af sér.“
Þórhildur Þorkelsdóttir, fréttamaður Stöðvar 2, ræddi ítarlega við Söru Lind í dag og má sjá viðtalið við hana í spilaranum hér að neðan.