Einn af æðstu leiðtogum ISIS í Anbar héraði í Írak hefur verið felldur í loftárás Bandaríkjanna. Abu Waheeb var áður meðlimur al-Qaeda í Írak, en Bandaríkin segja hann hafa verið felldan á föstudaginn.
„Það er hættulegt að vera leiðtogi ISIS í Írak og Sýrlandi þessa dagana,“ er haft eftir Peter Cook, talsmanni Pentagon, á vef BBC. Þetta er ekki í fyrsta sinn sem því hefur verið haldið fram að Waheeb hafi verið felldur, heldur hefur það verið gert nokkrum sinnum.
Hann er sagður hafa verið á ferðinni í vesturhluta landsins en hernaðaryfirvöld Bandaríkjanna segja þrjá aðra vígamenn hafa fallið með honum.
Leiðtogi ISIS í Anbar felldur
Samúel Karl Ólason skrifar
