Heiðrik hefur búið á Íslandi síðastliðin tvö ár, en auk þess að gefa út tónlist stundar hann nám í myndlist við Listaháskóla Íslands, ásamt því að vinna við gerð tónlistarmyndbanda, en hann hann hefur meðal annars unnið með Eivøru Pálsdóttur, hljómsveitinni Orku og Bloodgroup.
„Ég flutti til Íslands frá Danmörku en þar lærði ég kvikmyndagerð. Ég valdi að flytja til Íslands til að vera í meiri nálægð við náttúruna, enda Ísland mjög líkt Færeyjum en þaðan er ég,“ segir Heiðrik.
Platan verður samansafn af lögum sem hann samdi þegar erfiðleikar komu upp í hinu afskekkta og íhaldssama samfélagi Færeyja þar sem hann ólst upp.

Samtals verða tíu lög á plötunni, órafmögnuð og knúin áfram með píanói, strengjum, úkúlele sem og dúnmjúkri rödd Heiðríks. Tónarnir sem Heiðríkur leggur fyrir hlustandann tekur fólk í melankólskt og grátbroslegt ferðalag þar sem gætir áhrifa allt frá djassi til þjóðlagatónlistar.
„Mér fannst mjög erfitt að koma út úr skápnum sem hommi og gerði það ekki fyrr en ég var tuttugu og fimm ára, aðallega vegna þess hversu mikil hommafælni ríkir í Færeyjum. Ég passaði aldrei í hópinn og var alltaf öðruvísi. Ég hef aldrei almennilega komist yfir þessa skömm sem ég bar mjög lengi, þess vegna er mjög mikilvægt fyrir mig að gefa út þessa plötu,“ segir Heiðrik og bætir við að sem betur fer hafi hlutirnir verið að breytast í Færeyjum og eru hinsegin dagar haldnir hátíðlegir, og viðhorf til samkynhneigðar mun hleypidómalausara en var áður fyrr.
Nóg er um að vera framundan hjá Heiðrik en hann gaf út lagið Change of Frame nú á dögunum í samstarfi við leikhópinn Ratatam og Senu.
„Ég vonast til þess að spila mikið hér á Íslandi á næstunni, ásamt því að búa til myndbönd við öll lög plötunnar. Ég elska Ísland svo mér finnst mjög líklegt að ég komi til með að búa hér í framtíðinni,“ segir Heiðrik.
Fréttin birtist fyrst í Fréttablaðinu 4. ágúst.